Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2009 Forsætisráðuneytið

Neyðarmóttakan verður varin

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði í ávarpi á 20 ára afmæli UNIFEM á Íslandi í dag að þrátt fyrir yfirvofandi niðurskurð yrði starfsemi neyðarmóttöku nauðgana á Landspítala varin.

Nýlega bárust fréttir af því að stjórnendur Landspítalans hygðust mæta fyrirliggjandi hagræðingarkröfum með því m.a. að leggja af sérþjálfað teymi lækna sem sinnir Neyðarmóttöku vegna nauðgana. Ráðherra sagði að eðlilega hefðu þessar fréttir komið illa við fólk enda væri slík breyting mikil öfugþróun, ekki síst ef horft væri til stefnumörkunar ríkisstjórnarinnar í mansalsmálum og í baráttunni gegn kynferðislegu ofbeldi almennt.

“Starfsemi neyðarmóttökunnar þyrfti þvert á móti að efla þannig að sú mikla þekking sem þar hefur orðið til gæti nýst í þeirri atlögu sem nú stendur yfir gegn kynferðislegu ofbeldi í íslensku samfélagi. Heilbrigðisráðherra hefur þegar kallað eftir tillögum stjórnenda Landsspítalans í þessum efnum – starfsemi neyðarmóttökunnar verður því varin, þrátt fyrir yfirvofandi niðurskurð,” sagði forsætisráðherra.

Í ávarpinu kom einnig fram að kaup á vændi hefðu verið bönnuð og á yfirstandandi þingi stæði til að samþykkja frumvarp til laga um að banna nektarstaði. Þá verði hegningarlögum breytt til að færa ákvæði um mansal til samræmis við þá alþjóðasamninga gegn mansali sem ætlunin er að fullgilda.

“Ýmsum öðrum lögum verður breytt á yfirstandandi þingi til að tryggja úrræði fórnarlömbum til aðstoðar. Nýskipað sérfræði- og samhæfingarteymi gegn mansali hefur tekið til starfa – og ég get fullyrt að það hefur staðist sína fyrstu eldskírn í tengslum við það hörmulega mansalsmál sem núna er til rannsóknar hjá lögreglu,” sagði forsætisráðherra á afmælisfundi UNIFEM.

Ávarpið í heild

Reykjavík 25. nóvember 2009

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum