Hoppa yfir valmynd
5. janúar 2010 Forsætisráðuneytið

Endurreisnaráætlun stjórnvalda sett í uppnám

Mikill árangur hefur náðst við endurreisn íslensks efnahagslífs undanfarið ár og eru horfur á nýju ári mun betri en talið var framan af árinu 2009. Endurreisn föllnu bankanna hefur verið lokið með umtalsvert lægri tilkostnaði fyrir ríkissjóð en áætlað hafði verið. Lán til styrkingar gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans hafa verið tryggð og böndum komið á ríkisfjármálin. Þá hefur atvinnuleysi reynst minna er spáð hafði verið sem og samdráttur í landsframleiðslu. Verðbólga hefur snarlækkað og stýrivextir Seðlabankans verið lækkaðir samhliða því. Auk þessa hefur óvissu um lánshæfismat ríkissjóðs verið eytt eftir að stóru lánshæfismatsfyrirtækin þrjú hafa staðfest stöðu íslenska ríkisins í fjárfestingaflokki og að mati tveggja hafa horfur batnað. Stöðugt og batnandi lánshæfismat ríkissjóðs mun skipta miklu máli á næstu árum þegar ríkissjóður, Landsvirkjun og sveitafélög þurfa að endurfjármagna stór lán.

Þann 28. október var efnahagsáætlun Íslands í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS) endurskoðuð í fyrsta sinn, en hún hafði þá tafist í 10 mánuði. Samhliða þessu greiddi AGS annan hluta láns síns til styrkingar gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans og umsamin lán frá Norðurlöndunum opnuðust. Allar forsendur eru fyrir því að önnur endurskoðun áætlunarinnar eigi sér stað fyrir lok þessa mánaðar.

Framgangur efnahagsáætlunarinnar og stöðugleiki á lánshæfimati ríkissjóðs náðist eftir að íslensk stjórnvöld undirrituðu endurskoðaða samninga um lyktir Icesasve-málsins við Breta og Hollendinga. Lánshæfismatsfyrirtækin hafa meðal annars rökstutt ákvarðanir sínar með því að samkomulag um lyktir Icesave-málsins væri í sjónmáli.

Lausn Icesave-málsins er mikilvægt skref til að endurvinna traust alþjóðasamfélagsins sem beið hnekki með efnahagshruninu haustið 2008. Það samkomulag sem stjórnvöld gerðu við Breta og Hollendinga í október síðastliðnum hefur nú þegar orðið til þess að bæta samskipti Íslands við önnur ríki, alþjóðastofnanir og fjárfesta. Aðstæður er nú metnar þannig að senn sé tímabært fyrir stjórnvöld að leggja af stað í átak þar sem jákvæð þróun efnahagsmála verður kynnt fyrir öðrum þjóðum.

Með ákvörðun forseta Íslands um að staðfesta ekki breytingu Alþingis á lögum nr. 96/2009, svokölluðum Icesave-lögum er þeim árangri sem náðst hefur í endurreisnaráætlun stjórnavalda teflt í mikla tvísýnu. Í viljayfirlýsingu (e. Letter of Intent) íslenskra stjórnvalda til AGS vegna efnahagsáætlunarinnar sem undirrituð var í nóvember 2008 er því heitið að Icesave-málið verði leitt til lykta með samningum og er það ein forsenda lánveitinga frá sjóðnum. Þá hafa lyktir málsins verið forsenda fyrir lánafyrirgreiðslu af hálfu Norðurlandanna. Án þessara lána er fjármögnun efnahagsáætlunarinnar ótrygg og framhald hennar óvisst.

Aðilar stöðugleikasáttmálans hafa lagt á það ríka áherslu að Icesave-málið verði leitt til lykta sem fyrst á þann hátt sem fyrir liggur enda muni frekari tafir draga kraftinn úr öðrum aðgerðum og hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Áhöld eru um það hvort það sé pólitískt og stjórnskipulega eðlilegt að forseti beiti málskotsrétti sínum þegar um er að ræða milliríkjamál, líkt og Icesave-málið er, þar sem verið er að fylgja eftir skuldbindingum íslenskra stjórnvalda á alþjóðavettvangi. Stjórnvöld hafa kappkostað að eyða allri slíkri óvissu og leitast við að skapa traust í garð þjóðarinnar. Óvissa eða uppnám í fjármálalegum samskiptum við önnur ríki getur haft ófyrirsjáanlegar, víðtækar og mjög skaðlegar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag.

Ríkisstjórnin leggur áherslu á að ekki má dragast upp sú mynd gagnvart umheiminum að Ísland ætli að hlaupast frá skulbindingum sínum og verður það gert með sérstakri tilkynningu.

Ríkisstjórn Íslands lýsir vonbrigðum með ákvörðun forseta og í ljósi þeirra alvarlegu áhrifa sem synjun forseta Íslands kann að hafa mun ríkisstjórnin nú meta stöðu mála og horfur varðandi þá endurreisnaráætlun sem hún hefur fylgt með góðum árangri.

5. janúar 2010

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum