Hoppa yfir valmynd
19. janúar 2010 Forsætisráðuneytið

Frumvarp forsætisráðherra um siðareglur samþykkt í ríkisstjórn

Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er áformað að setja ráðherrum og stjórnsýslu ríkisins siðareglur. Setning siðareglna verður mikilvægur liður í að endurreisa traust til íslenska stjórnkerfisins. Ríkisstjórnin samþykkti í morgun frumvarp forsætisráðherra þar sem sköpuð er lagaleg umgjörð um slíkar siðareglur.

Samkvæmt frumvarpinu fá siðareglur lagastoð þannig að fjármálaráðherra staðfesti almennar siðareglur fyrir starfsmenn ríkisins, en forsætisráðherra siðareglur fyrir ráðherra og eftir atvikum aðstoðarmenn þeirra og ennfremur siðareglur fyrir starfsmenn Stjórnarráðsins. Setningu siðareglna verði fylgt eftir með víðtækri fræðslu fyrir ríkisstarfsmenn þar sem lögð verður áhersla á að efla þekkingu starfsmanna á grundvallargildum stjórnsýslunnar og því hvernig leysa eigi úr siðferðilegum álitamálum sem rísa í starfi. Fjármálaráðuneytið mun bera ábyrð á því að skipuleggja og hrinda slíkri fræðslu í framkvæmd.

Sérstök samhæfingarnefnd forsætisráðherra mun fylgjast með því að siðareglur nái tilætluðum árangri og gerir tillögur til stjórnvalda um leiðir til að draga úr hættu á spillingu og hagsmunaárekstrum. Samhæfingarnefndin mun hafa samráð við umboðsmann Alþingis og Ríkisendurskoðanda enda búa þau embætti yfir mikilli þekkingu á vönduðum stjórnsýsluháttum, forsvaranlegri meðferð almannafjár og hvar hættur séu á spillingu. Meginábyrgð á eftirliti með siðareglum verður í höndum stjórnenda hjá ríkinu.

Því til viðbótar er lagt til að umboðsmaður Alþingis taki við kvörtunum um brot á siðareglum og gefi eftir atvikum álit en oft mun slík könnun umboðsmanns geta fallið saman við athugun á hvort farið hafi verið að lögum. Því tengt er lagt til að kveðið verði skýrlega á um vernd ríkisstarfsmanna sem greina viðeigandi aðilum frá brotum á siðareglum og lögbrotum almennt sem þeir verða áskynja um í starfi. Með breytingu á starfsmannalögum er lagt til að kveðið verði á um að liggi fyrir að siðareglur hafi verið brotnar geti það leitt til agaviðurlaga. Einnig verði lögum um ráðherraábyrgð breytt þannig að ljóst sé að brot á siðareglum geti leitt til viðurlaga samkvæmt þeim lögum.

Verði frumvarpið að lögum munu forsætisráðherra og fjármálaráðherra undirbúa setningu siðareglna á grundvelli tillagna starfshóps forsætisráðherra, sem birtar voru 9. október síðastliðinn og með hliðsjón af niðurstöðum Þjóðfundarins sem haldinn var í nóvember 2009. Náið samráð verður haft við þá sem eiga að starfa eftir siðareglunum. Frumvarpið verður nú sent sent þingflokkum ríkisstjórnarinnar. Frumvarpið verður þó ekki lagt fram á Alþingi fyrr en borist hefur lögbundin umsögn stéttarfélaga um breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996.

 

Reykjavík 19. janúar 2010

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum