Hoppa yfir valmynd
8. mars 2010 Forsætisráðuneytið

Stígamót 20 ára - Aðgerðir ríkisstjórnarinnar og Evrópuráðssamningur gegn kynbundnu ofbeldi

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra minntist, í ávarpi í tilefni tvítugsafmælis Stígamóta, þeirra tímamóta sem urðu fyrir tuttugu árum þegar samtökin voru stofnuð og það mikilvæga og nauðsynlega starf sem þau hafa unnið upp frá því. Forsætisráðherra fjallaði einnig um baráttu ríkisstjórnarinnar gegn kynbundnu ofbeldi og fullgildingu Evrópuráðssamnings gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi.

„Baráttan gegn hvers kyns kynbundnu ofbeldi er ofarlega á dagskrá ríkisstjórnarinnar, eins og kemur fram í samstarfsyfirlýsingu flokkanna. Unnið er af fullum krafti að innleiðingu aðgerðaáætlunar gegn mansali. Kaup á vændi hafa þegar verið gerð refsiverð. Í undirbúningi er að innleiða svokallaða austurríska leið í baráttunni gegn heimilisofbeldi og sömuleiðis að afnema lagaákvæðið sem gerir nektarstöðum fært að starfa á undanþágum. Það eru víða uppi metnaðarfullar hugmyndir um hvernig við getum eflt baráttuna enn frekar.“

Í smíðum er ný aðgerðaáætlun stjórnvalda gegn kynbundnu ofbeldi sem gilda skal fyrir árin 2011-2015. Þar verður væntanlegur Evrópuráðssamningur hafður mjög til hliðsjónar, sá fyrsti sinnar tegundar. Jafnréttisnefnd Evrópuráðsins samþykkti að hefja vinnu að samningnum í tíð Steingríms J. Sigfússonar á formannsstóli í nefndinni. Ætlunin er að hann liggi fyrir til undirritunar um næstu áramót eða í upphafi næsta árs. Samningurinn verður mjög víðtækur og nær yfir margvíslegar skyldur stjórnvalda til að vernda konur gegn hvers kyns ofbeldi, herða ákvæði hegningarlaga, þjálfa fagstéttir og aðra til að takast á við ofbeldið, veita fórnarlömbum margvísleg úrræði, efla meðferð gerenda, auka rannsóknir og söfnun tölfræðilegra upplýsinga og margt fleira.

„Vinna að nýrri aðgerðaáætlun hófst í dag, 8. mars og er stefnt að því að kynna fullbúna aðgerðaáætlun 24. október næstkomandi, á 35 ára afmæli kvennafrídagsins. Þessi heildstæða endurskoðun á málaflokknum á að mínu mati að stefna að því að Ísland geti orðið eitt af fyrstu ríkjunum sem fullgildir væntanlegan Evrópuráðssamning“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.

Ræða ráðherra í heild sinni.

Reykjavík 8. mars 2010

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum