Hoppa yfir valmynd
17. mars 2010 Forsætisráðuneytið

Umfangsmiklar aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna

Frá upphafi banka- og gjaldmiðilshrunsins í október 2008 hefur ríkisvaldið gripið til viðamikilla aðgerða til að bæta erfiða stöðu skuldsettra heimila. Aðgerðirnar eru einhverjar þær umfangsmestu sem gripið hefur til vegna skuldavanda sem steðjar að heimilum. Þetta eru almennar aðgerðir sem nýtast öllum og sértækar aðgerðir sem beinast að þeim sem verst standa.

Nú þegar hafa um 60-80 þúsund manns notið úrræðanna og áður en árið er liðið er reiknað með að hækkaðar vaxtabætur og útborganir séreignarsparnaðar vegna úrræða ríkisstjórnarinnar nemi um 40 milljörðum króna.

Fjölmargir aðilar hafa lagt hönd á plóg við endurskoðun þeirra aðgerða sem þegar hefur verið gripið til, bæði hagsmunasamtök, fjármálastofnanir, stofnanir ríkisins og einstaklingar.

Meðal þess helsta sem nú er lagt til af hálfu ríkisstjórnarinnar er annars vegar stórbætt greiðsluaðlögunarfrumvarp, sem eftirleiðis verður félagslegt úrræði en ekki „vægara“ form gjaldþrots. Fleiri munu hafa rétt á greiðsluaðlögun og verður nú eitt kerfi fyrir allar kröfur. Með þessu er samningsstaða lántakenda gagnvart sínum lánadrottnum bætt.

Samhliða nýju greiðsluaðlögunarfrumvarpi verður sett á fót embætti umboðsmanns skuldara sem byggt verður á traustum grunni Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Umboðsmaðurinn verður talsmaður lántakenda gagnvart lánardrottnum og er ekki hlutlaus.

Ríkisstjórnin kynnir nú fjölmargar nýjungar sem bæta stöðu lántakenda enn frekar. Meðal þeirra helstu eru:

  • sérstök úrræði fyrir þá sem eru tekjulágir eða hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli
  • úrræði fyrir fólk með tvær eignir
  • enn lægra hámark á dráttarvexti
  • við nauðungarsölur verður markaðsvirði eigna dregið frá kröfu
  • fólki gert kleift að búa í húsnæði í 12 mánuði þrátt fyrir nauðungarsölu/gjaldþrot
  • hámarksfjárhæðir innheimtukostnaðar takmarkaðar enn frekar
  • reglur um niðurfellingu skattkrafna endurskoðaðar
  • hóflegar skuldbreytingar skattfrjálsar
  • stórfelldar niðurfellingar skattlagðar
  •  dregið úr vægi verðtryggingar


Við þær sviptingar sem orðið hafa á lána- og húsnæðismarkaði er ljóst að horfa verður til framtíðar. Því mun verða lögð fram heildstæð húsnæðisstefna til framtíðar á vormánuðum, sem byggir á þremur stoðum: eigna-, búseturéttar- og leiguleið.

  • Nýju kaupleigukerfi verður komið á fót hjá Íbúðalánasjóði vegna eigna sem hann á nú þegar – örugg leiga og kaupréttur.
  • Bætt lög um húsnæðissamvinnufélög.
  • Húsnæðisbætur í stað vaxta- og húsaleigubóta.

Sjá einnig ítarlegri útlistun aðgerða og glærukynningu.
 

Reykjavík 17. mars 2010

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum