Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2010 Forsætisráðuneytið

Ræða forsætisráðherra á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins

Í ræðu sinni á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins sem haldinn var í dag hvatti Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, samtökin til að koma aftur að stöðugleikasáttmálanum og vinna út frá þeim forsendum sem nú liggja fyrir. Þá fjallaði hún einnig um hvað einkenna þurfi nýtt bankakerfi þar sem óhóf, pukur og ofurlaun eigi að heyra sögunni til, á hvaða grunni atvinnulífið eigi að byggjast og hvernig umsókn að ESB sé óaðskiljanlegur hluti af endurreisn íslensks efnahagslífs.

Um bankakerfið sagði forsætisráðherra meðal annars: „Við þurfum nýja siði, nýjan hugsunarhátt og ný vinnubrögð í bönkunum. Ofurlaun og bónusar eiga að heyra sögunni til, leynimakkið og ógengsæ eignarhaldsfélög eiga að heyra sögunni til! Skattsvikahagkerfið sem þreifst í gömlu bönkunum í skjóli leyndarinnar á einnig að heyra sögunni til! Skilanefndirnar hafa starfað á gráu svæði eða óljósu og þær eiga ekki að vera við lýði deginum lengur en bein þörf er á. Pukur, óhóf og sjálftaka í fjármálakerfinu á að heyra sögunni til, aðeins þannig tekst okkur ætlunarverkið um að öðlast traust þjóðarinnar á fjámálakerfinu.“

Jóhanna brýndi fulltrúa Samtaka atvinnulífsins til að taka virkan þátt í vinnu stjórnvalda næstu vikur og mánuði við gerð sóknaráætlunar fyrir landið í heild og samtvinnun fjölmargra áætlana hins opinbera. „Ég vil að þessi vinna verði tengd undirbúningi á endurskoðun kjarasamninga og heildarendurskoðun á skattkerfinu sem nú er að fara af stað. Undirbúningur kjaraviðræðna er eitt af mikilvægustu verkefnum samfélagsins framundan og þar eru stjórnvöld fús að koma að málum eins og skylt er.

Allir aðilar stöðugleikasáttmálans hafa skorað á Samtök atvinnulífsins að koma aftur að borðinu. ASÍ gerði í gær gott betur og kallaði eftir því að samhliða því sem áfram yrði unnið að þeim verkefnum úr sáttmálanum sem eru í farvegi, yrði sameinast um nýja aðgerðaáætlun í efnahags- og atvinnumálum út frá þeim forsendum sem nú liggja fyrir m.a. á grunni afgreiðslu AGS í síðustu viku. Ég vil fyrir mitt leyti skora á Samtök atvinnulífsins að koma að slíku borði enda er um brýna þjóðarhagsmuni að ræða. Öllum ber nú skylda til að leggjast á árarnar til frekari sóknar.“

Forsætisráðherra  kom inn á að á mörgum sviðum atvinnulífsins væru jákvæð teikn á lofti. „Ríkið hefur unnið að fjölþættum aðgerðum til þess að auka framkvæmdir og styrkja atvinnustigið. Allt þokast þar áfram í rétta átt þótt hægara gangi en mörgum líkar.“ [...] „Í mínum huga vegnar okkur best með frjálsum viðskiptum í opnu og alþjóðlegu hagkerfi þar sem pólitíska valdið setur atvinnulífinu laga- og regluramma og hefur virkt eftirlit með því að honum sé framfylgt. Samskiptin fari eftir almennum leikreglum sem séu gegnsæjar þannig að hægt sé á hverjum tíma að sannreyna að þeim hafi verið fylgt.

Ég hefi í störfum mínum reynt að fylgja þessu grundvallarsjónarmiði og hef ekki freistast til þess að grípa til handstýringar eða stjórnunar með tilskipunum sem falla utan ramma hins formlega stjórnkerfis. Það má vel vera að mönnum finnist slíkir stjórnarhættir seinvirkir og að þeir skili okkur seint í áfangastað. En þá verður bara að hafa það. Betra er að stýra heilum báti í höfn en að fara sér að voða.“

Að lokum fjallaði forsætisráðherra um aðild Íslands að Evrópusambandinu. „Við þurfum framsýni og víðsýni sem byggð er á skynsemi. Við þurfum að sýna þeim sem við þjónum virðingu og stíga hvert skref af skynsemi með langtímahagsmuni þjóðarinnar í huga. Við þurfum að sýna þjóðinni hvert við stefnum.

Ég tel að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu sé óaðskiljanlegur hluti af endurreisninni. Í henni felast skýr skilaboð til umheimsins og hún er veigamikill þáttur í stefnumótun okkar til lengri framtíðar. Það er mikill misskilningur að of miklum fjármunum og tíma sé varið í undirbúning að samningaferlinu.

Staða okkar mun eflast þegar Ísland verður viðurkennt umsóknarríki og í ferlinu sjálfu munu skapast margskonar möguleikar og tækifæri til aðlögunar og uppbyggingar. Jafnframt verður tekinn af allur vafi um þá efnahagsstefnu sem fylgt er því markmiðið verður að standast efnahagsskilyrði Maastricht-samkomulagsins sem eru skynsamleg og eftirsóknarverð fyrir ríkið og þjóðina. Þau verða keppikefli og ögunartæki í efnahagsstjórninni.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum