Hoppa yfir valmynd
11. maí 2010 Forsætisráðuneytið

Mælt fyrir frumvarpi um fjármál stjórnmálasamtaka, frambjóðenda og upplýsingaskyldu þeirra

Forsætisráðherra mælti í gær fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Felur frumvarpið í sér heildarendurskoðun á lögunum annars vegar í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur af framkvæmd þeirra og hins vegar með hliðsjón af tilmælum sem GRECO, samtök ríkja gegn spillingu, sem starfar innan vébanda Evrópuráðsins hafa beint til íslenskra stjórnvalda í matskýrslu sinni frá 4. apríl 2008 um gagnsæi fjárframlaga til stjórnmálasamtaka hér á landi.

Ljóst er að af samanburði við önnur lönd að Ísland er nú, eftir gildistöku laganna  1. janúar 2007, í fremstu röð á þessu sviði. En frá þeim tíma hafa íslensk lög sett verulegar skorður við einkafjármögnun stjórnmálastarfsemi hér á landi og ef þær reglur eru bornar saman við gildandi reglur á hinum Norðurlöndunum er ljóst að Ísland sker sig nokkuð úr hvað þetta varðar. Er Ísland í reynd eina landið í hópi Norðurlanda þar sem settar eru skorður við fjárhæð framlaga frá lögaðilum og einstaklingum. Ísland gengur jafnframt lengst í því að setja skorður við framlögum að öðru leyti svo sem með banni við framlögum frá opinberum aðilum, erlendum aðilum og óþekktum gefendum. Íslensk löggjöf uppfyllir jafnframt nú þegar í öllum megindráttum kröfur ráðherranefndar Evrópuráðsins eins og þær eru settar fram í tilmælum nr. (2003)4 um sameiginlegar reglur gegn spillingu í fjármögnun stjórnmálaflokka og kosningabaráttu. Þannig lúta tilmæli GRECO sem beint er til íslenskra stjórnvalda fyrst og fremst að lagfæringum og úrbótum á gildandi ákvæðum laganna, með ákveðnum undantekningum þó. 

Meðal helstu breytinga í frumvarpinu eru:

  1. Lagt er til að reglur laganna um framlög til frambjóðenda frá einstaklingum og lögaðilum og um upplýsingaskyldu þeirra taki einnig til frambjóðanda í forsetakosningum. Samhliða er lagt til að kveðið verði á um leyfilegan hámarkskostnað frambjóðenda í forsetakjöri af kosningabaráttu (35 milljónir króna).
  2. Lagt er til að nöfn þeirra einstaklinga sem styrkja stjórnmálaflokka eða frambjóðendur um meira en 200.000 kr. verði gerð opinber. Er með öðrum orðum lagt til að svonefnt nafnleyndargólf verði lækkað úr 300.000 kr. í 200.000 kr. hvað einstaklinga varðar. Regla laganna um að öll framlög frá lögaðilum séu opinber stendur óbreytt.
  3. Til að auka jafnræði milli stjórnmálasamtaka og til að greiða fyrir því að ný stjórnmálasamtök geti boðið fram í kosningum til Alþingis er lagt til að stjórnmálasamtök geti, án tillits til niðurstöðu kosninganna, sótt um fjárstyrk úr ríkissjóði til að standa straum af útlögum kostnaði vegna kosningabaráttunnar, allt að 3 millj. kr.

Aðrir flutningsmenn frumvarpsins eru: Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.

Ferill málsins

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum