Hoppa yfir valmynd
17. maí 2010 Forsætisráðuneytið

Horft til framtíðar Dagur upplýsingatækninnar 20. maí

Dagur upplýsingatækninnar, UT-dagurinn, verður haldinn fimmtudaginn 20. maí næstkomandi. Að þessu sinni verða haldnar tvær ráðstefnur þennan dag og í dagskrárlok verða í fyrsta skipti afhent upplýsingatækniverðlaun Skýrslutæknifélagsins.

Fyrir hádegi standa Stofnun í stjórnsýslufræðum og Félag forstöðumanna ríkisstofnana að ráðstefnu sem helguð er nýsköpun í opinberum rekstri. Eftir hádegi verður ráðstefnan „Horft til framtíðar“ sem helguð er umbótum og framsæknum verkefnum í opinberri stjórnsýslu og upplýsingatækniiðnaði. Að henni standa forsætisráðuneytið, Skýrslutæknifélagið, Samtök upplýsingatæknifyrirtækja, Félag forstöðumanna ríkisstofnana og Stofnun stjórnsýslufræða.

Á ráðstefnunni „Horft til framtíðar“ eiga upplýsingatækniiðnaðurinn og stjórnsýslan stefnumót þar sem rætt verður um hvað læra megi af þeim fyrirtækjum sem náð hafa góðum árangri í útflutningi á hugbúnaði og hvað stjórnvöld geta gert til að hlúa að áframhaldandi uppbyggingu iðnaðarins. Einnig verður fjallað um breytingar á skipulagi upplýsingatækni- og umbótamála hjá ríkinu, Sóknaráætlun 20/20 og upplýsingatækniverkefni sem skilað hafa góðum árangri í opinberri stjórnsýslu.

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, mun setja ráðstefnuna og Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, mun afhenda upplýsingatækniverðlaunin í lok dagskrárinnar.

Þetta er í fimmta sinn sem forsætisráðuneytið skipuleggur Dag upplýsingatækninnar og ráðstefnu í tengslum við hann. Ráðstefnan verður haldin 20. maí frá kl. 12:00 til 17:00 í Salnum Kópavogi. Á vefnum http://www.sky.is/ má finna ítarlega dagskrá UT-dagsins og upplýsingar um skráningu.


Nánari upplýsingar veitir:
Guðbjörg Sigurðardóttir, skrifstofustjóri í forsætisráðuneyti.
Sími: 545 8470; netfang: [email protected]

Reykjavík, 17. maí 2010

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum