Hoppa yfir valmynd
16. júní 2010 Forsætisráðuneytið

Viðburðadagskrá vegna 200 ára fæðingarafmælis Jóns Sigurðssonar

Viðburðadagskrá vegna 200 ára fæðingarafmælis Jóns Sigurðssonar forseta verður kynnt í Ráðhúsi Reykjavíkur 17. júní 2010 kl. 14:00.


Alþingi fól forsætisráðherra að skipa nefnd til að undirbúa hvernig minnast eigi þess að 17. júní 2011 verða liðin 200 ár frá fæðingu Jóns Sigurðssonar forseta.

Nefndin hefur undirbúið verkefni og viðburði fyrir minningarárið. Þessi viðburðadagskrá liggur nú fyrir og verður kynnt í Ráðhúsi Reykjavíkur 17. júní 2010, þegar eitt ár er í 200 ára fæðingarafmæli Jóns Sigurðssonar forseta.

Dagskrá:

  • Ávarp formanns afmælisnefndar, Sólveigar Pétursdóttur.
  • Úrslit í samkeppni um nýja sýningu á Hrafnseyri við Arnarfjörð.
  • Tilkynnt úrslit í samkeppni um sérstakt minningarmerki.
  • Tilkynnt úrslit í samkeppni Íslandspósts um hönnun frímerkis.
  • Hleypt af stokkunum almennri samkeppni um vandaða minjagripi og handverk
  • sem sækja innblástur í söguna og menningararfinn og tengjast lífi og starfi Jóns
  • Sigurðssonar forseta á einhvern hátt. Skilafrestur er til 20. september.
  • Greint frá ritgerðasamkeppni meðal nemenda 8. bekkjar grunnskóla um Jón Sigurðsson.
  • Opnaður upplýsingavefurinn www.jonsigurdsson.is
  • Opnuð sýning á öllum innsendum tillögum í þessum þremur samkeppnum.

Jón Sigurðsson forseti

Nafn Jóns Sigurðssonar er órjúfanlega tengt stofnun þjóðríkis á Íslandi. Hann hóf friðsama baráttu fyrir pólitísku og efnahagslegu sjálfstæði Íslands um miðja 19. öld og bar höfuð og herðar yfir samtímamenn sína sem foringi Íslendinga.

Eftir andlát hans var nafn hans sem lýsandi viti fyrir landsmenn alla, tengdist þeim sigrum, sem unnir voru á vettvangi þjóðfrelsis og lýðréttinda, og hefur ávallt verið sameiningartákn þjóð­arinnar.

Sýningum, viðburðum og útgáfu á afmælisárinu er ætlað að draga upp mynd af lífi og starfi Jóns Sigurðssonar og veita innsýn í þátt hans í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.

Afmælisnefnd forsætisráðuneytisins

Nefndin var skipuð þann 17. júní 2007 og skipa hana auk formannsins, Sólveigar Pétursdóttur, Karl M. Kristjánsson fulltrúi Alþingis, Eiríkur Finnur Greipsson fulltrúi Hrafnseyrarnefndar og fulltrúar stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi, þau Ásthildur Sturludóttir, Finnbogi Hermannsson, Kristinn H. Gunnarsson, Sigrún Magnúsdóttir og Sigurður Pétursson. Verkefnisstjóri nefndarinnar er Björn G. Björnsson og tengiliður við forsætisráðuneytið er Sigrún Ólafsdóttir.

Nánari upplýsingar veitir Sigrún Ólafsdóttir, forsætisráðuneyti: [email protected]

Reykjavík 16. júní 2010

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum