Hoppa yfir valmynd
16. júní 2010 Forsætisráðuneytið

Kosið verður til stjórnlagaþings í haust

Alþingi hefur samþykkt frumvarp forsætisráðherra um stjórnlagaþing. Samkvæmt lögunum verður kosið til stjórnlagaþings eigi síðar en 30. október nk. Við kosningu til þingsins verður viðhaft persónukjör og geta allir sem eru kjörgengir við kosningar til Alþingis boðið sig fram að frátöldum forseta Íslands, alþingismönnum, varamönnum þeirra, ráðherrum og þeim sem taka sæti í undirbúningsnefndum vegna þingsins.

Vandað verður til undirbúnings stjórnlagaþings og annast sérstök stjórnlaganefnd, sem verður sjálfstæð í störfum sínum, faglegan undirbúning þess.

Þjóðfundur

Samkvæmt lögunum skal efnt til þjóðfundar í aðdraganda stjórnlagaþings í þeim tilgangi að kalla eftir meginsjónarmiðum og áherslum almennings varðandi stjórnskipan landsins, stjórnarskrá og breytingar á henni. Þjóðfundinn skal halda tímanlega áður en kosið verður til stjórnlagaþings. Miðað verði við að þátttakendur á þjóðfundi verði um eitt þúsund talsins og þeir valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá þannig að gætt sé að eðlilegri skiptingu þátttakenda af landinu öllu og að kynjaskipting verði sem jöfnust. Við undirbúning og kynningu þjóðfundarins er miðað við að litið verði til reynslunnar sem fékkst af þjóðfundinum sem haldinn var árið 2009 á vegum „Mauraþúfunnar“.

Stjórnlaganefnd

Hlutverk stjórnlaganefndar verður að undirbúa eiginlega vinnu þjóðfundar og stjórnlagaþings, safna undirbúningsgögnum, svo sem innlendum og erlendum fræðigreinum og skrifum á þessu sviði, gögnum vegna fyrri vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar, erlendum fyrirmyndum o.s.frv. Þá á nefndin að skipuleggja vinnu þjóðfundar þannig að hún verði markviss og skili niðurstöðum og tillögum. Loks á stjórnlaganefndin að vinna úr niðurstöðum þjóðfundarins efnislegar tillögur sem lagðar skulu fyrir stjórnlagaþing.

Stjórnlagaþing

Samkvæmt lögunum mun þjóðkjörið stjórnlagaþing koma saman 15. febrúar nk. Gera lögin ráð fyrir því að þingið ljúki störfum í síðasta lagi 15. júní 2011 með samþykkt frumvarps til nýrra stjórnarskipunarlaga. Verður frumvarpið þá sent Alþingi til frekari meðferðar og samþykktar í samræmi við ákvæði núgildandi stjórnarskrár.

Þjóðaratkvæðagreiðsla

Með lögunum hefur endurskoðun stjórnskrárinnar verið sett í opinn og lýðræðislegan farveg sem miðar að því að sem mest sátt geti náðst um nýja stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands. Grundvallarþáttur í þeirri vegferð er að afrakstur vinnunnar, ný stjórnarskrá, verði borin undir þjóðina í beinni þjóðaratkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar. Mun forsætisráðherra beita sér fyrir því að slík þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram með samþykki Alþingis.

Ný stjórnarskrá árið 2013

Er raunhæft að ætla að ný stjórnarskrá samkvæmt niðurstöðum stjórnlagaþings og Alþingis og að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu geti öðlast gildi árið 2013.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum