Hoppa yfir valmynd
17. júní 2010 Forsætisráðuneytið

Minningarár Jóns Sigurðssonar

Kynning í Ráðhúsi Reykjavíkur 17. júní 2010 kl. 14:00-15:00

Dagskrá:

Ávarp formanns
1. Formaður afmælisnefndar, Sólveig Pétursdóttir, býður gesti velkomna, segir stuttlega frá nefndinni og starfi hennar frá 2007 og kynnir viðburðadagskrá minningarársins.

2. Samkeppni forsætisráðuneytisins um sýningu á Hrafnseyri
Sigrún Magnúsdóttir, formaður dómnefndar, segir frá samkeppni um hönnun nýrrar sýningar á Hrafnseyri, afhendir viðurkenningar og verðlaun:

2. viðurkenning: Tillaga merkt „Jafnakollur“. Höfundur: Ólafur J. Engilbertsson.   
                                 Vðurkenning fyrir þátttöku kr. 200.000.-
1. viðurkenning: Tillaga merkt „Rafnseyri“.  Höfundur: Fíton Auglýsingastofa.
                                 Viðurkenning fyrir þátttöku kr. 200.000.-
Verðlaunahugmynd: Tillaga merkt „Tímanna rás“. Höfundur: Basalt arkitektar.
                                 Viðurkenning fyrir þáttöku kr. 200.000.- og höfundar fá það       
                                 verk  að ljúka hönnun sýningarinnar.

3.  Samkeppni forsætisráðuneytisins um afmælismerki
Alls bárust 35 tillögur.
Hörður Lárusson, formaður FÍT, lýsir úrslitum og afhendir verðlaunin:
3. verðlaun kr. 100.000.-  Dulnefni: 2 007  Höfundur: Oscar Bjarnason.
2. verðlaun kr. 200.000.-  Dulnefni: Gamligamli  Höfundur: Hjörvar Harðarson.
1. verðlaun kr. 500.000.-  Dulnefni: Íslendingur 1118 
                                                 Höfundur: Björgvin Sigurðsson.


4.  Samkeppni Íslandspósts um frímerki
Alls bárust 17 tillögur. Íslandspóstur gefur frímerkið út 17. Júní 2011 og gefur verðlaunaféð. Hörður Jónsson, forstöðumaður pósthúsasviðs hjá Íslandspósti, afhendir verðlaunin.
3. verðlaun  kr. 100.000.-  Dulnefni: Gamli gamli  Höfundur: Hjörvar Harðarson.
2. verðlaun  kr. 200.000.-  Dulnefni:  Kalsi  Höfundur: Gréta Guðmundsóttir.
1. verðlaun  kr. 700.000.-  Dulnefni: Ungur gamall: 
                                                   Höfundur: Borgar Hjörleifur Árnason.

5.  Samkeppni forsætisráðuneytisins um minjagripi og handverk
Hleypt af stokkunum almennri og opinni samkeppni um minjagripi og handverk sem sækja fyrirmyndir í söguna og menningararfinn og tengjast lífi og starfi Jóns Sigurðssonar forseta á einhvern hátt. Skilafrestur er þrír mánuðir ogverðlaunafé er samtals ein milljón króna.
Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður fylgir samkeppninni úr hlaði.

6.  Ritgerðasamkeppni skólabarna
Efnt verður til ritgerðasamkeppni meðal nemenda í 8. bekk grunnskólanna í febrúar á næsta ári í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Ráðgert er að hafa sendibréfsformið til hliðsjónar, en sendibréfið var helsti samskiptamátinn á tíma Jóns Sigurðssonar.
Fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Erna Árnadóttir, segir frá samkeppninni.

7.  Opnaður vefurinn  www.jonsigurdsson.is
Rebekka Rán Samper frá vefumsjón forsætisráðuneytisins opnar vefinn og útskýrir hann.

8.  Opnuð sýning í Tjarnarsal
Formaður afmælisnefndar opnar sýningu á öllum innsendum tillögum í samkeppnum um sýningu á Hrafnseyri, afmælismerki og frímerki og lokar dagskránni.

Nánari upplýsingar um viðurkenningar og verðlaun í samkeppnum.

Samkeppnir

Afmælisnefnd Jóns Sigurðssonar ákvað að efna til samkeppni um fimm atriði varðandi undirbúning og viðburði minningarársins. Þrjár þeirra voru lokaðar samkeppnir á faglegum nótum, um afmælismerki, frímerki og hönnun nýrrar sýningar á Hrafnseyri. Hinar tvær eru ritgerðasamkeppni skólabarna og loks almenn samkeppni um minjagripi og handverk.

Ný sýning á Hrafnseyri

Á fæðingarstað Jóns Sigurðssonar við Arnarfjörð er allstórt hús. Það var byggt sem prestsetur og skólahús um 1960 og áföst því er minningarkapella. Hún var vígð 3. ágúst 1980 og um leið var opnuð þar í tveimur herbergjum sýningin Safn Jóns Sigurðssonar. Höfundar hennar voru Einar Laxness sagnfræðingur og Steinþór Sigurðsson listmálari.
Þegar farið var að huga að 200 ára minningu Jóns Sigurðssonar var ákveðið að gera ákveðnar breytingar á Hrafnseyri, taka neðri hæðina undir nýja sýningu og efna til samkeppni um hönnun hennar.

Átta aðilum var gefinn kostur á að taka þátt í samkeppninni. Þeir voru: Axel Hallkell Jóhannesson hönnuður, Árni Páll Jóhannsson hönnuður, Basalt arkitektar, Fíton auglýsingastofa, Ólafur J. Engilbertsson hönnuður/Sögumiðlun ehf, Snorri Freyr Hilmarsson hönnuður, Yrki arkitektar og Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir hönnuður.
Samkeppnisgögn voru afhent 10. febrúar 2010 og skilafrestur ákveðinn tíu vikur. Fimm aðilar sögðu sig frá keppni en þrír skiluðu fullbúnum tillögum.

Nefndin greiðir kr. 200.000.- fyrir hverja innsenda tillögu og samið verður við sigurvegarann að fullhanna sýninguna.
Formaður dómnefndar var Sigrún Magnúsdóttir frá afmælisnefnd og auk hennar Bryndís Sverrisdóttir frá Þjóðminjasafni, Guðjón Friðriksson sagnfræðingur, Hringur Hafsteinsson frá Gagarín og Valdimar J. Halldórsson staðarhaldari á Hrafnseyri. Trúnaðarmaður dómnefndar var Björn G. Björnsson, verkefnisstjóri.
Dómnefnd valdi tillöguna „Tímanna rás“ sem þótti bæði nýstárleg og spennandi. Höfundar tillögunnar reyndust vera Basalt arkitektar; Ene Cordt Andersen arkitekt, Hallmar Sigurðsson menningarstjórnunarfræðingur, Marcos Zotes‐Lópes arkitekt, Sigríður Sigþórsdóttir arkitekt og Þórhallur Sigurðsson arkitekt.  Guðjón L. Sigurðsson veitti lýsingaráðgjöf.

Höfundar verðlaunatillögunnar fá það viðfangsefni að fullgera tillöguna í samvinnu við undirbúningsnefnd, verkefnisstjóra og Hornsteina arkitekta sem hanna breytingar á húsakynnum á Hrafnseyri.

Frá formanni dómnefndar
Til formanns afmælisnefndar.
Það tilkynnist hér með að dómnefnd um hönnun nýrrar sýningar um Jón Sigurðsson að Hrafnseyri við Arnarfjörð hefur lokið störfum.  Allir dómnefndarmenn voru sammála um að velja tillögu sem ber auðkennið „Tímanna rás...“
Formaður og trúnaðarmaður dómnefndar hafa haft samband við vinningshafa, en nöfn þeirra verða eigi birt opinberlega fyrr en 17. júní n.k.
Dómnefndarmenn voru: Bryndís Sverrisdóttir Þjóðminjasafni, Valdimar J. Halldórsson Hrafnseyri, Hringur Hafsteinsson Gagarín, Guðjón Friðriksson sagnfræðingur og Sigrún Magnúsdóttir fulltrúi afmælisnefndar og formaður.
Trúnaðarmaður dómnefndar var Björn G. Björnsson verkefnisstjóri afmælisnefndarinnar.
Virðingarfyllst
f.h. dómnefndar, Sigrún Magnúsdóttir

Umsagnir dómnefndar (örlítið styttar).
Dómnefndin var ásátt um eftirfarandi umsagnir um tillögur, sem merktar eru auðkennum frá hendi höfunda. Umsagnirnir voru samdar áður en umslög voru opnuð, sem leiddu í ljós höfund/höfunda tillagnanna.

Tillaga merkt „Tímanna rás...“
Tillagan að sýningunni virkar nýstárleg/nútímaleg, forvitnileg og spennandi. Plexigler, sem er umgjörð sýningarinnar, gerir hana að flæðandi órofa heild.
Tillagan býður upp á víxlverkun milli texta, mynda og hluta, sem liggja framarlega eða „dýpra“ og dulúðlega á dramatískan hátt í plexiglerinu. Einstökum atvikum eru gerð skil með þrívíðum  hætti, sem eykur frumleika tillögunnar. Þá er hægt að njóta útsýnisins út um sérvalda glugga og þar með tengist sýningin sterkt umhverfinu og það verður hluti af upplifuninni.
Frásögn sýningarinnar fylgir tímalínu en skýrri kaflaskiptingu er sleppt, það gefur  sýningunni möguleika á meira flæði og frísklegum frásagnarstíl. Tillagan leggur áherslu á samspil sýningar við gesti, og leitast er við að vekja þá til umhugsunar um þá sjálfa, landið og heiminn. Einnig er samtenging Jóns við nútimann mjög áhugavert þema sem eftir er að útfæra nánar. Draumkennt og um leið þokukennt yfirbragð sýningarinnar á stöku stað er e.t.v. sett fram til að sýna hvernig Íslendingar í dag hugsa um Jón Sigurðsson.
Það er óvenjulegt að sýningarhönnuðir nýti dagsbirtuna sem hluta af lýsingu sýningar eða upplifun. Þar sem dagsbirtan og ljóskastarar bak við glerið eru notaðir sem aðalljósgjafar getur það reynst erfitt ef sýningin verður annað og meira en bara sumarsýning.

Tillaga merkt „Rafnseyri“
Tillagan hefur fallegt grafískt heildaryfirbragð með smekklegu litavali og um leið er vandað til verka við gerð ýmissa fíngerðra útfærslna.
Tillagan uppfyllir skilyrði dómnefndar um heilstætt yfirbragð og útfærslu, en er hefðbundin í allri uppsetningu og fátt sem kemur á óvart eða vekur forvitni.
Umsagnir sem féllu við skoðun hjá dómnefndinni: Falleg sýning. Klassískt yfirbragð. Smekkleg en hefðbundin. Tekur tillit til umhverfis Arnarfjarðar. Fyrirsjáanleg eða lítil nýbreytni.

Tillaga merkt „Jafnakollur“
Heildaryfirbragð er hefðbundið en með smekklegum litaútfærslum. Áhugaverð hugmynd að setja Jón og Ingibjörgu inn  á myndir til að glæða þær lífi og tengja þau við mismunandi staði og tíma. Tillöguhönnuðir setja fram afar skemmtilegar hugmyndir um svæði fyrir börn í einum sýningahlutanum.
Höfundar virðast hafa átt við tímaskort að stríða og ekki náð að nostra við útfærslur, það er eins og það vanti herslumuninn að ná að framfylgja hugmyndinni.  Tillagan virkar full einhæf og býður upp á lítið nýjabrum eða frumleika. 
17. maí 2010
Sigrún Magnúsdóttir / Björn G Björnsson

Afmælimerki

Afmælisnefndin ákvað að efna til faglegrar samkeppni um minningar- eða afmælismerki sem yrði tákn minningarársins. Keppnin var haldin í samstarfi við FÍT og í samkeppnisreglum var mælst til að unnt yrði að framleiða merkið sem minjagrip. Keppnisreglur voru sendar út í byrjun mars og skilafrestur ákveðinn til 16. apríl en var framlengdur til 30. apríl.  Alls bárust 35 tillögur.
Dómnefnd var þannig skipuð:
Frá FÍT, Félagi íslenskra teiknara: Einar Gylfason teiknari FÍT, Halli Civelek teiknari FÍT og Elsa Nielsen teiknari FÍT. Frá afmælisnefnd: Sigrún Ólafsdóttir forsætisráðuneyti og Björn G. Björnsson verkefnisstjóri, formaður dómnefndar.
Trúnaðarmaður dómnefndar var Haukur Haraldsson teiknari FÍT.
Dómnefnd lauk störfum 7. maí og urðu úrslit þessi:
Fyrstu verðlaun hlaut Björgvin Sigurðsson kr. 500.000.-
Umsögn: Falleg og vel unnin hugmynd, sett fram á óvenjulegan hátt. Hugmyndin sameinar manninn og lífsverkið.
Önnur verðlaun hlaut Hjörvar Harðarson kr. 200.000.-
Umsögn: Stílhreint og einfalt merki.
Þriðju verðlaun hlaut Oscar Bjarnason kr. 100.000.-
Umsögn: Einfalt og sterkt merki.

Samkeppni um frímerki

Íslandspóstur ákvað að gefa út frímerki í tilefni af 200 ára fæðingarafmælis Jóns Sigurðssonar og var efnt til lokaðrar samkeppni um hönnun þess skv. reglum FÍT. Keppnisgögn voru sent út í byrjun mars og skilafrestur var til 30. apríl 2010. Alls bárust 17 tillögur.
Dómnefnd var þannig skipuð:
Frá Íslandspósti: Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri. Frá FÍT, Félagi íslenkra teiknara: Halla Helgadóttir teiknari FÍT, Jón Ágúst Pálmason teiknari FÍT og Oscar Bjarnason teiknari FÍT. Frá afmælisnefnd JS200: Björn G. Björnsson, verkefnisstjóri, formaður. Trúnaðarmaður dómnefndar var Hörður Lárusson teiknari, formaður FÍT.
Dómnefnd lauk störfum 5. maí og urðu úrslit þessi:
Fyrstu verðlaun kr. 700.000.- hlaut Borgar Hjörleifur Árnason.
Umsögn: Hefðbundin en mjög vel unnin tillaga. Tvennir tímar – Jón yngri og eldri. Bæði örkin og frímerkin koma vel út.
Önnur verðlaun kr. 200.000.- hlaut Gréta Guðmundsdóttir.
Umsögn: Einföld og fáguð útfærsla sem lýsir vel hlutskipti Jóns Sigurðssonar; að hugsa, skrifa og mótmæla.
Þriðju verðlaun kr. 100.000.- hlaut Hjörvar Harðarson.
Umsögn: Tilraun til að fara út fyrir hið hefðbundna.
Íslandspóstur gefur frímerkið út 17. júní 2011.

Samkeppni um minjagripi og handverk

Þar sem allar þrjár fyrrnefndar samkeppnir voru lokaðar fagkeppnir ákvað afmælisnefnd að efna til almennrar og opinnar samkeppni þar sem allir gætu tekið þátt, en talsverð vakning er í íslensku handverki og hönnun.
Því er nú hleypt af stokkunum samkeppni um minjagripi og handverk sem sækja innblástur í söguna og menningararfinn og tengjast lífi og starfi Jóns Sigurðssonar á einhvern hátt. Skilafrestur er þrír mánuðir, eða til 20. september.
Verðlaunafé er ein milljón króna. Fyrstu verðlaun eru kr. 600.000.- en veittar verða viðurkenningar samtals fyrir kr. 400.000.- skv. ákvörðun dómnefndar.
Í undirbúningshópi sitja Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, Halla Helgadóttir frá Hönnunarmiðstöð Íslands, Sunneva Hafsteinsdóttir frá Handverki og Hönnun, Jóhannes Þórðarson frá Listaháskóla Íslands og Björn G. Björnsson frá afmælisnefnd, sem er formaður.

Dómnefnd tekur til starfa í september og úrslit munu liggja fyrir í lok október. Sýning verður á völdum tillögum um mánaðamótin október - nóvember.
Nokkrir gripir verða valdir til framleiðslu og útgáfu á minningarárinu en framleiðsla er alfarið á forræði höfunda.

Ritgerðasamkeppni skólabarn

Efnt verður til ritgerðasamkeppni meðal nemenda í 8. bekk grunnskólanna á næsta skólaári í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið og grunnskólana. Nemendur lesa um Jón Sigurðsson og sjálfstæðisbaráttuna á haustmisseri og samkeppnin fer fram í febrúar 2011.  Ráðgert er að hafa sendibréfsformið til hliðsjónar, en sendibréfið var helsti samskiptamátinn á tíma Jóns Sigurðssonar.
Nánar verður skýrt frá tilhögun keppninnar, dómnefnd og verðlaunum þegar nær dregur á vefnum www.jonsigurdsson.is

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum