Hoppa yfir valmynd
1. september 2010 Forsætisráðuneytið

Ríkisstjórnin veitir styrk vegna kvennafrídagsins 2010

Ríkisstjórnin hefur í tilefni af kvennafrídeginum 24. október 2010 samþykkt að veita átta milljónir króna af ráðstöfunarfé sínu til Skottanna, regnhlífarsamtaka félaga og samtaka innan kvennahreyfingarinnar hér á landi, til að undirbúa viðburði í tengslum við daginn.

Í ár eru liðin 35 ár frá fyrsta kvennafrídeginum og jafnframt eru 90 ár síðan konur fengu kosningarétt, 80 ár eru liðin frá stofnun Kvenfélagasambands Íslands, 40 ár frá stofnun Rauðsokkahreyfingarinnar, 30 ár frá kjöri frú Vigdísar Finnbogadóttur, forseta, 20 ár liðin frá stofnun Stígamóta og 16 ár frá samþykkt Peking-áætlunarinnar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Af þessu tilefni verður boðað til alþjóðlegra viðburða dagana 24. - 25. október nk. undir yfirskriftinni "Kvennafrídagurinn 2010 - konur gegn kynbundnu ofbeldi / Women Strike Back 2010".

Aðild að Skottunum eiga yfir 10.000 konur sem eru félagar í Kvenfélagasambandi Íslands, Kvenréttindasambandi Íslands, Samtökum um kvennaathvarf, Feministafélagi Íslands, Stígamótum, Zontasambandi Íslands, Kvennaráðgjöfinni, Bríeti, félagi ungra feminsta, Unifem, Samtökum kvenna af erlendum uppruna, Landssambandi Soroptimista, Sólstöfum á Vestfjörðum, Kvennasögusafninu og Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum