Hoppa yfir valmynd
8. september 2010 Forsætisráðuneytið

Aukið samstarf Færeyja og Íslands á sviði jafnréttismála o.fl.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Kaj Leo Johannessen lögmaður Færeyja
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Kaj Leo Johannessen lögmaður Færeyja

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Kaj Leo Johannessen, lögmaður Færeyja, funduðu í dag í Færeyjum og undirrituðu við það tækifæri viljayfirlýsingu um aukið samstarf forsætisráðuneytanna. Samstarfið tekur einkum til jafnréttismála og verkefna varðandi breytingar og þróun í stjórnsýslunni og ráðuneytum.

Ráðherrar færeysku ríkisstjórnarinnar áttu jafnframt fund með forsætisráðherra í morgun og kynnti forsætisráðherra þeim m.a. stöðu efnahagsmála, jafnréttismál og fyrirhugað stjórnlagaþing. Forsætisráðherra og lögmaður ræddu ennfremur aukið samstarf landanna á sviði jafnréttismála, aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu, tvíhliða samstarf og fyrirhugaðar breytingar á stjórnarráði Íslands.

Forsætisráðherra og lögmaður heimsóttu í gær Norðurlandahúsið, Listasafn Færeyja og Þjóðminjasafn Færeyja. Lögmaður hélt forsætisráðherra kvöldverð í Kirkjubæ, sem hefur mikið menningarsögulegt gildi í Færeyjum.

Heimsóknin til Færeyja var fyrsta opinbera heimsókn forsætisráðherra frá því að hún tók við embætti. Á blaðamannafundi sem haldinn var í dag þakkaði forsætisráðherra færeyska lögmanninum sérstaklega vel fyrir móttökurnar og lagði áherslu á það góða og trausta samband sem hefði verið og yrði áfram á milli þjóðanna.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum