Hoppa yfir valmynd
13. október 2010 Forsætisráðuneytið

Árangursríkur samráðsfundur ráðherra og þingnefnda um lausnir vegna skuldavanda

Samráðsfundur um skuldavanda heimilanna var haldinn í gærkvöldi með fimm ráðherrum og nefndarmönnum allsherjarnefndar, félags- og tryggingamálanefndar , efnahags - og skattanefndar og viðskiptanefndar Alþingis. Til fundarins mættu 29 þingmenn úr öllum flokkum og stóð hann yfir í um tvær klukkustundir.

Á fundinum kynntu ráðherrar ríkisstjórnarinnar og formenn þingnefndanna þá vinnu sem nú fer fram á vettvangi ríkisstjórnar og Alþingis til að hraða og auðvelda skuldaaðlögun einstaklinga og fyrirtækja, bæði nauðsynlegar bráðaaðgerðir til að efla fyrirliggjandi úrræði og hugmyndir um langtímalausnir á skuldavanda heimila.

Almenn samstaða skapaðist um mikilvægi þess að ráðherrar og alþingismenn allra flokka ynnu vel saman að nauðsynlegum breytingum á fyrirliggjandi úrræðum þannig að skuldaaðlögun fyrirtækja og einstaklinga gengi hratt og vel fyrir sig á næstu mánuðum. Mikilvæg forsenda endurreisnarinnar er að greiða úr skuldavandanum með árangursríkum hætti.

Á fundinum kom fjármálaráðherra fram með nýjar upplýsingar um skuldavanda heimilana, byggðar m.a. á skattframtölum liðins árs sem ráðherrann studdist við. Þar kemur m.a. fram að um 20% heimila skulda um 43% af veðtryggðum skuldum, þar sem veðsetningarhlutfall er hærra en fasteignamat viðkomandi eignar. Skuldir þessa heimila nema samtals um 125 milljörðum króna umfram fasteignamat.  

"Fundurinn var mjög árangursríkur og uppörvandi. Þarna voru umræður hreinskiptar og lausnamiðaðar og allir einbeittir í því að leggja sitt af mörkum." sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, eftir fundinn í gærkvöldi. „Þarna var mikill samstarfsvilji og ég á von á því að hann skili sér í umræðum og afgreiðslu þingsins á nauðsynlegum aðgerðum vegna skuldavandans." sagði forsætisráðherra.

Í dag kl. 18.00 fundar samráðshópur ráherranna og stjórnarandstöðunnar með fulltrúum fjármálafyrirtækja, Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna auk Hagsmunasamtaka heimilanna, Talsmanni neytenda og Umboðsmanni skuldara.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum