Hoppa yfir valmynd
1. desember 2010 Forsætisráðuneytið

Styrkveitingar Þjóðhátíðarsjóðs vegna ársins 2011

Lokið er úthlutun styrkja úr Þjóðhátíðarsjóði 2010 vegna ársins 2011 sem jafnframt er síðasta almenna úthlutun sjóðsins.

Tilgangur sjóðsins er að veita styrki til stofnana og annarra aðila, er hafa það verkefni að vinna að varðveislu og vernd þeirra verðmæta lands og menningar, sem núverandi kynslóð hefur tekið í arf. Við það skal miðað, að styrkir úr sjóðnum verði viðbótarframlög til þeirra verkefna, sem styrkt eru, en verði ekki til þess að lækka önnur opinber framlög til þeirra eða draga úr stuðningi annarra við þau.

Í stjórn sjóðsins sitja nú:

  • Margrét Bóasdóttir, söngkona, formaður skipuð af forsætisráðherra.
  • Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, tilnefndur af Seðlabanka Íslands.
  • Björn Teitsson, magister,
  • Margrét K. Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi, og
  • Kristín Halldórsdóttir, fv. alþingismaður, sem kjörin eru af Alþingi.
  • Ritari sjóðsstjórnar er Sigfús Gauti Þórðarson, lögfræðingur.

Alls bárust 273 umsóknir um styrki að fjárhæð samtals um 418 millj. kr. Úthlutað var að þessu sinni 59 styrkjum að fjárhæð samtals kr. 35 millj. kr. og hlutu eftirtaldir 8 aðilar (verkefni) hæstu styrkina, þ.e. 1 millj. kr. hver:

  1. Hugvísindastofnun Háskóla Íslands; v. gagnasöfnunar og skráningar á íslensku táknmáli.
  2. Ríkisútvarpið, Rás 1; v. þátta um sögu Ríkisútvarpsins í tilefni 80 ára afmælis.
  3. Íslensk tónverkamiðstöð; v. flutnings og varðveislu handrita í Þjóðarbókhlöðu.
  4. Íslenska landnámshænan; til kynningarstarfs og ræktunar á Vatnsnesi.
  5. Fræðslufélag um forystufé; til uppbyggingar fræðaseturs í Þistilfirði.
  6. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum; til að skrásetja í gagnagrunn allar fornleifar þjóðgarðsins.
  7. Sauðfjárræktarfélag Hrunamanna; til endurgerðar á Hrunaréttum og varðveislu á eyktanöfnum og notkun sólarklukku.
  8. Þjóðminjasafn Íslands; til að skrá og nýta heimildir um jörð og byggingar að Þverá Laxárdal og setja upp sýningu.

Sérstök úthlutunarathöfn verður í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík af þessu tilefni, kl. 16.00 í dag.

Nánari upplýsingar um styrkveitingu sjóðsins má m.a. sjá í fréttatilkynningu á vef Seðlabanka Íslands.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum