Hoppa yfir valmynd
3. desember 2010 Forsætisráðuneytið

Víðtækar aðgerðir vegna skulda- og greiðsluvanda heimilanna

Ríkisstjórnin hefur náð samkomulagi við lánastofnanir og lífeyrissjóði um víðtækar aðgerðir vegna skulda- og greiðsluvanda heimilanna. Aðgerðirnar byggja á umfangsmiklu samráði við hagsmunaaðila og sameiginlegri greiningu þeirra á umfangi vandans og mögulegum úrræðum til lausnar. Um 60 þúsund heimili munu með beinum hætti njóta góðs af samkomulaginu í formi niðurfellinga skulda, aukinna vaxtabóta eða almennri niðurgreiðslu vaxta auk þess sem aðilar að samkomulaginu munu taka upp náið samstarf um að hraða lausn skuldavandans og um uppbyggingu félagslegra lausna í húsnæðismálum. Heildarumfang aðgerðanna fer að öllum líkindum yfir hundrað milljarða króna. Aðilar samkomulagsins eru einhuga um að með þessum aðgerðum sé með viðhlítandi hætti og eins og fært er brugðist við skuldavanda heimilanna.

 Meginefni samkomulagsins er eftirfarandi:

Aðgerðir í þágu yfirveðsettra heimila

Lántakendum í greiðsluvanda með yfirveðsettar eignir býðst að fá eftirstöðvar skulda færðar niður að 110% af verðmæti fasteignar. Niðurfærslu skulda eru settar takmarkanir. Annars vegar er um að ræða niðurfærslu að hámarki 4 m.kr. hjá einstaklingi og 7 m.kr. hjá hjónum/sambýlisfólki og einstæðum foreldrum, sem ætlunin er að afgreiða megi hratt. Mun ítarlegra mat á eignum og greiðslugetu þarf að koma til ef um meiri niðurfærslu er að ræða, að hámarki 15 m.kr. hjá einstaklingi og 30 m.kr. kr. hjá hjónum/sambýlisfólki og einstæðum foreldrum.   

Sértæk skuldaaðlögun

Með breytingum á sértækri skuldaaðlögun mun það úrræði bjóðast fleiri heimilum og bætt samstarf við úrvinnslu mun auka skilvirkni þess. Lántakendum í miklum greiðsluvanda býðst að færa lán sín niður í allt að 70% af verðmæti íbúðarhúsnæðis til samræmis við greiðslugetu. Allt að 30% af virði eignar er þá sett á vaxta- og afborgunarlaust biðlán í 3 ár og skuldir umfram 100% felldar niður.

Auknar vaxtabætur

Rúmlega 2 milljörðum króna verður varið til að viðhalda sérstakri hækkun vaxtabóta sem verið hefur við lýði á árunum 2009 og 2010. Jafnframt verður gerð breyting á almennum vaxtabótum þannig að þær komi í auknum mæli til móts við heimili með þunga skuldabyrði og lágar og miðlungstekjur.  

Ný tímabundin vaxtaniðurgreiðsla

Nýtt tímabundið úrræði verður mótað til að greiða niður vaxtakostnað vegna íbúðahúsnæðis. Niðurgreiðslan er almenn, óháð tekjum, en fellur niður þegar hrein eign skuldara er umfram tiltekin há mörk. Reikna má með að greiðslubyrði heimila muni lækka vegna þessa um allt að 200-300 þúsund kr. á ári. Kostnaðurinn við þetta nýja úrræði verður allt að 6 milljarðar króna á ári og verður hún í gildi árin 2011 og 2012. Ríkisstjórnin mun í samstarfi við aðila samkomulagsins leita leiða til að fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir fjármagni þessi útgjöld.

Sérstakt átak til að ná til heimila í vanskilum

Lánveitendur munu kappkosta að ná til allra heimila sem eru í vanskilum og bjóða þeim viðhlítandi lausnir fyrir 1. maí 2011. Sérstökum samstarfsvettvangi verður komið upp til að flýta afgreiðslu mála og allar aðgerðir verða miðaðar við komast megi hjá uppboðum eigna.

 Félagslegar lausnir í húsnæðismálum

Lánveitendur munu vinna með ríki, sveitarfélögum og félagasamtökum við að koma á fót fjölbreyttum húsnæðislausnum og lífeyrissjóðir munu greiða götu félagslegra úrræða í húsnæðismálum með kaupum á sérstökum flokki íbúðabréfa á lægstu mögulegum vöxtum. Ríkisstjórnin mun ekki lækka framlög til húsaleigubóta á næsta ári.

 Frekari upplýsingar um aðgerðirnar er að finna í viljayfirlýsingu aðila samkomulagsins sem undirrituð var í dag.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum