Hoppa yfir valmynd
15. desember 2010 Forsætisráðuneytið

ESA staðfestir gildi neyðarlaganna

  • Bráðabirgðaniðurstaða ESA um gildi neyðarlaganna staðfest
  • Fallist á sjónarmið Íslands í máli lánardrottna íslensku bankanna
  • Forgangur sem innstæðum var veittur fær staðist
  • Íslensk stjórnvöld höfðu rétt til að verja bankakerfið og almannaöryggi
  • Ekki fjallað um hugsanlega mismunun milli innlendra og erlendra innistæðueigenda

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) staðfesti fyrr í dag þá niðurstöðu sína í sjö kvörtunarmálum, sem kröfuhafar gömlu bankanna höfðuðu vegna laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.  nr. 125/2008 (neyðarlaganna), að ákvæði þeirra varðandi forgang sem innstæðum var veittur gagnvart almennum kröfum, sem og ráðstafanir íslenskra stjórnvalda á grundvelli laganna, stæðust kröfur EES-samningsins og önnur lagaleg skilyrði.

ESA komst í desember á síðasta ári að þeirri bráðabirgðaniðurstöðu að ákvæði neyðarlaganna, einkum varðandi forgang sem innstæðum var veittur gagnvart almennum kröfum, og ráðstafanir íslenskra stjórnvalda á grundvelli laganna stæðust kröfur EES-samningsins og önnur lagaleg skilyrði. Jafnframt taldi stofnunin að ekki hefðu verið nein önnur úrræði sjáanleg en þau sem gripið var til sem hefðu getað spornað við algjöru hruni efnahagslífsins á Íslandi. ESA gaf kvartendum hins vegar kost á að senda inn viðbrögð vegna fyrrgreindra bráðabirgðaniðurstaðna áður en stofnunin tæki endanlega afstöðu í málunum. Stofnunin hefur nú tilkynnt að endanleg niðurstaða málanna sé í samræmi við fyrrgreinda bráðabirgðaniðurstöðu.

Kvartendur hafa  ekki möguleika til að skjóta fyrrgreindum málum til EFTA-dómstólsins og er málsmeðferð innan EES því lokið. Í fréttatilkynningu ESA kemur fram að framangreind niðurstaða taki ekki til ágreiningsmála varðandi innstæðutryggingakerfið og mismunun milli innstæðueigenda í innlendum og erlendum útibúum gömlu bankanna.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum