Hoppa yfir valmynd
7. janúar 2011 Forsætisráðuneytið

Ný ráðherranefnd í atvinnumálum

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun tillögu forsætisráðherra um að sett verði á fót ráðherranefnd í atvinnumálum sem fjallar um atvinnu- og vinnumarkaðsmál m.a. í tengslum við markmið sem sett eru fram í stefnunni Ísland 2020. Gert er ráð fyrir að forsætisráðherra og fjármálaráðherra eigi föst sæti í nefndinni en að efnahags-og viðskiptaráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra, iðnaðarráðherra, velferðarráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra taki sæti í nefndinni eftir því hvaða mál eru til umfjöllunar. Jafnframt verði aðrir ráðherrar kallaðir til eftir því sem tilefni er til hverju sinni.

Settir verða á fót tveir undirhópar annars vegar um mótun atvinnustefnu og sköpun starfa og hins vegar um vinnumarkaðsúrræði fyrir atvinnulausa og úrræði á sviði starfs-og endurmenntunar. Gert er ráð fyrir því að hóparnir verði m.a. skipaðir fulltrúum tilnefndum af hlutaðeigandi ráðuneytum, öllum þingflokkum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Kennarasambandi Íslands, Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja og Bændasamtökum Íslands. Jafnframt verða kallaðir til setu í hópunum sérfræðingar sem búa yfir reynslu og þekkingu á sviði atvinnu- og vinnumarkaðsúrræða.

"Það er afar mikilvægt að okkur takist að skapa hér ný og varanleg störf hér á landi árið 2011 og að því ætlum við okkur að vinna með öflugum hópi fulltrúa hagsmunaaðila , sérfræðinga og stjórnmálamanna. Ég vænti mikils af þessu starfi" sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum