Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 1999 Forsætisráðuneytið

Endurfundir - Dagskrá landafundanefndar árið 2000

Endurfundir

Dagskrá landafundanefndar í Bandaríkjunum og Kanada á árinu 2000:

230 viðburðir á 70 stöðum.

Á vegum landafundanefndar hafa nú verið skipulagðir um 230 viðburðir á tæplega 70 stöðum í Bandaríkjunum og Kanada á næsta ári, þ.á.m. tónleikar, listsýningar, kvikmyndavikur, sögusýningar, málþing og leiksýningar, útgáfa margmiðlunarefnis, kvikmynda og bóka. Þessi fjölbreytta dagskrá hefur að markmiði að kynna íslenska menningu í Vesturheimi og efla tengsl við Vestur-Íslendinga og aðra íslandsvini í tilefni árþúsundamótanna. Frásögn íslendingasagna af landafundunum í Vesturheimi fyrir 1000 árum tengir bókmenntaarf þjóðarinnar byggðinni í Vesturheimi á heillandi hátt og liggur hann sem rauður þráður í gegnum alla dagskrána. Yfirskrift dagskrárinnar - Endurfundir - skírskotar annars vegar til þess að eitt þúsund ár eru liðin frá því að fundum Íslendinga og Ameríkumanna bar fyrst saman og hins vegar til fræðandi endurfunda við sameiginlega sögu þjóðanna. Sigling víkingaskipsins Íslendings til Bandaríkjanna með viðkomu á Grænlandi og í Kanada er táknræn fyrir þessa endurfundi. Dagskráin hefur verið skipulögð í samráði við fjölda aðila í Norður-Ameríku, þ.á.m. einstaklinga, félög Íslendinga vestanhafs, samtök Vestur-Íslendinga og íslensk fyrirtæki, sem starfa í Norður-Ameríku. Þá hefur skrifstofa bandaríkjaforseta stofnað til sérstaks samstarfs um árþúsundamótamál við íslensk stjórnvöld, eitt ríkja. Landafundanefnd hefur lagt áherslu á að styðja framtak og hugmyndir íslenskra, bandarískra og kanadískra einstaklinga, stofnana og fyrirtækja af þessu tilefni og þannig stuðlað að því að kraftar frumkvöðla fái notið sín og varanleg tengsl skapist milli þeirra sem vinna saman að viðburðunum beggja vegna hafsins.

Landafundanefnd var skipuð af forsætisráðherra á ársbyrjun 1998 til að gera tillgöur um hvernig minnast ætti landafunda Íslendinga í Vesturheimi og hrinda í framkvæmd þeim tillögum sem fallist var á. Auglýst var eftir hugmyndum og mynda þær tillögur, sem valdar voru og samþykktar af ríkisstjórn, þá dagskrá sem nú er kynnt. Formaður landafundanefndar er Sigurður Helgason, forstjóri. Á árunum 1998 til 2001 nemur fjárhagsrammi nefndarinnar 335,6 milljónum króna.

Landafundanefnd vinnur í nánu samráði við undirbúningsnefnd fyrir verkefnið Reykjavík Menningarborg árið 2000 og Kristnihátíðarnefnd og hafa þessir aðilar sameiginlega skrifstofuaðstöðu í Aðalstræti 6 í Reykjavík. Framkvæmdastjóri landafundanefndar er Einar Benediktsson, dagskrár- og upplýsingastjóri er Guðjón Arngrímsson og fjármálastjóri er Guðrún Fjóla Gränz.

Í Reykjavík, 3. nóvember 1999.

Dagskrá Landafundanefndar

3. nóvember 1999

Dagskráin er unnin af Landafundanefnd í samráði og samvinnu við fjölmarga aðila hér heima og vestanhafs. Má þar meðal annars nefna: Árþúsundanefnd Hvíta hússins (The White House Millennium Council), Kanadísku árþúsundanefndina (The Canadian Millennium Bureau), Árþúsunda – 125 nefndina (The Millennium- - 125 Commission), Þjóðræknisfélagið í Kanada (The Iceland National League of Canada), og Íslensk-amerísku félögin í Bandaríkjunum (The Icelandic-American Societies of the United States).

Ath! Dagskráin - dagsetningar, viðburðir, staðir - er háð fyrirvara um breytingar.

Eftirfarandi eru helstu atriði dagskrárinnar:

Desember '99 í New York
Hin fyrsta af mörgum íslenskum kvikmyndahátíðum verður haldin 3.- 9. desember á þessu ári, eftir mánuð. Þá verða sýndar í kvikmyndahúsinu Quad Theater á Manhattan bæði nýjar íslenskar kvikmyndir og það helsta sem Íslendingar hafa gert á kvikmyndasviðinu. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, verður viðstaddur opnunina. Íslenskir kvikmyndahöfundar verða einnig á kvikmyndahátíðinni. Fyrirtækið American Premieres annast skipulagningu og fjölmiðlasamskipti vestra í samráði við Kvikmyndasjóð Íslands, sem Landafundanefnd hefur falið framkvæmd kvikmyndaverkefna.

Apríl í Minneapolis
Í Minneapolis hefur um árabil verið öflug Íslendinganýlenda sem ræðismannshjónin Margrét og Örn Arnar hafa leitt af annáluðum krafti. Aðalhátíðahöldin verða í apríl, þá verður íslensk kvikmyndahátíð í borginni, leiksýningar fyrir fullorðna og börn, auk sérstakrar Íslandsviku þar sem kynntar verða framleiðsluvörur og þjónusta. Sitthvað fleira verður einnig í Minneapolis, einkum á tónlistarsviðinu

12. apríl í Ottawa
Dagskráin í Kanada hefst formlega með hátíð í Ottawa þann 12. apríl og fer hún fram í Museum of Civilization, einu glæsilegasta menningarsafni í heimi. Þar mun Davíð Oddsson forsætisáðherra afhenda forsætisráðherra Kanada, Jean Chrétien, styttu Ásmundar Sveinssonar af Guðríði Þorbjarnardóttur og syninum Snorra. Samkoman er í rauninni gríðarleg afmælisveisla fyrir Snorra, fyrsta barnið af evrópskum uppruna, sem fæddist í Ameríku. Til að fagna afmælinu koma 500 kanadísk skólabörn í veisluna auk þess sem huldufólk verður á sveimi og þar verður líka eini íslenskættaði geimfarinn, Bjarni Tryggvason.

20. apríl í Reykjavík
Þótt langflestir viðburðir verði vestanhafs getum við Íslendingar einnig átt endurfundi við söguna á glæsilegri opnunarsýningu nýja Þjóðmenningarhússins við Hverfisgötu á sumardaginn fyrsta. Sýningin, sem stendur yfir fram á haust, fjallar um siglingar og landafundi Íslendinga á miðöldum. Sýnt verður hvernig menn skynjuðu heiminn á víkingaöld, á hvaða menningarstigi landsmenn voru, samskipti við önnur lönd og hvernig þeir mynduðu ríki á Íslandi, svo eitthvað sé nefnt.

29. apríl í Washington
Glæsileg og viðamikil sýning hins virta Smithsonian safns í Washington á sögu og menningu víkinga á norður- og vesturslóðum mun að öllum líkindum vekja mesta athygli allra viðburðanna og draga að sér flesta gesti. Þar verða fjölmörgum þáttum í menningu víkinga gerð ítarleg skil með einstökum munum frá helstu söfnum á Norðurlöndum. Hlutur Íslands í þessari sýningu er mikill, sýndir verða dýrgripir úr safni Stofnunar Árna Magnússonar og Þjóðminjasafni Íslands, gerð grein fyrir íslenska þjóðveldinu og rakin saga landafunda í máli og myndum. Sýning Smithsonian safnsins mun fara um allar stærstu borgir Bandaríkjanna á næstu tveimur árum, búist er við að um 20 milljónir gesta muni skoða hana og hún muni ná eyrum og augum Bandaríkjamanna um fjölmiðla.

4.-10 maí í Los Angeles
Hið víðfræga kvikmyndahús Egyptian Theater við Hollywood Boulevard í hjarta kvikmyndaborgarinnar er miðpunktur íslenskra viðburða í Kaliforníu. Þar verður haldin íslensk kvikmyndahátíð 4.-10. maí þar sem sýnt verður það nýjasta og besta úr íslenskri kvikmyndagerð, og á sama tíma verður þar ráðstefna, popp- og jasstónleikar, tískusýningar, fyrirlestrar og leiksýningar. Jafnframt verða haldnar kynningar á íslenskri vöru og þjónustu – og á íslenska hestinum, svo eitthvað sé nefnt.

24. maí í Washington:
Líf íslenskra bókmennta með þjóðinni er uppistaðan í sýningu sem Landsbókasafn/Háskólabókasafn á Íslandi og Library of Congress, hin þekkta þjóðarbókhlaða Bandaríkjanna í Washington, efna til á íslenskum handritum og bókum sem geyma íslenskar fornsögur. Hún verður fyrst sett upp í Reykjavík, þá í Washington og síðar í Cornell-háskólanum og Winnipeg í Kanada. Þessi sýning verður glæsilegur vitnisburður um þá samleið sem íslenskar fornbókmenntir og íslensk þjóð hafa átt um aldir og langstærsta sýning sem gerð hefur verið um íslensku handritin. Sýningin verður opnuð með ráðstefnu virtustu fræðimanna heims á þessu sviði.

17. júní í Reykjavík
Vonast er til þess að sagan kvikni til lífs með siglingu víkingaskipsins Íslendings í kjölfar Leifs Eiríkssonar og byggingu tilgátuhúsa í Haukadal í Dalasýslu og Brattahlíð á Grænlandi. Siglingin, sem hefst á þjóðhátíðardaginn í Reykjavíkurhöfn, minnir okkur á hið mikla afrek þeirra manna og kvenna sem lögðu í óvissu á opnu hafi hvött áfram af brennandi forvitni og löngun til að skyggnast út fyrir bæjarhólinn heima þó farkostur og búnaður væru frumstæð á okkar vísu. Bygging tilgátuhúsa á slóðum Þjóðhildar og Eiríks rauða í Haukadal og Brattahlíð er löngu tímabær sýnisvöllur þar sem nútímafólk fær skýra hugmynd um híbýli og húsakost forfeðranna. Margháttuð hátíðarhöld hafa verið skipulögð í tengslum við komu Íslendings til hafna á austurströnd Kanada og Bandaríkjanna, fyrst á Nýfundnalandi en síðast á slóðum Karlsefnis og Guðríðar í New York.

15. -20. júlí í Brattahlíð á Grænlandi
Mikil hátíðahöld eru fyrirhuguð af hálfu Grænlendinga í Brattahlíð þegar víkingaskipið Íslendingur kemur þar við á leið sinni vestur. Bær Eiríks rauða sem Íslendingar hafa reist og kirkja Þjóðhildar verða miðpunktur hátíðahalda sem búist er við að verði fjölsótt og frumleg. Þar verður meðal annars stór hópur íslenskra víkinga.

28. júlí - 20. ágúst í Nýfundnalandi
Landafundahátíðahöld munu setja mark sitt á allt Nýfundnaland, austasta fylki Kanada á árinu 2000. Hátíðahöldin eru skipulögð af stjórnvöldum í Nýfundnalandi í nánu samráði við Íslendinga, og tengjast víkingaskipinu Íslendingi sem kemur til L}Anse aux Meadows 28. júlí. Þar tekur Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra á móti skipinu. Síðan fer skipið til 12 hafnarborga og hafnarbæja á Nýfundnalandi. Skipulagðar hafa verið margvíslegar sýningar og hátíðir, sérstaklega í L'anse aux Meadows, þar má nefna endurgerð Víkingaþorps með á annað hundrað "leikurum" og hópsiglingu undir forystu Íslendings. Auk víkingaskipsins verður leikritið Ferðir Guðríðar sýnt í St. Johns höfuðborg Nýfundnalands.

5.-7. ágúst í Gimli:
Íslendingadagurinn verður hátíðlegur haldinn á næsta ári í Gimli meðsérlega vandaðri dagskrá og þar verður forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson heiðursgestur.

8.- 13. september í Boston
Viðburðirnir í Boston tengjast einkum komu víkingaskipsins Íslendings og eiga sér flestir stað á frábærum vettvangi, New England Aquarium, risastórum sædýra- og skemmtigarði við höfnina. Víkingaskipið verður kynnt sem helsta aðdráttarafl garðsins þá viku og efnt verður til leiksýninga, myndlistarsýningar, tónleika, viðamikillar fiskréttakynningar á fjölmörgum stöðum í borginni og íslensk kvikmyndahátíð verður haldin í Museum of Fine Arts. Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur síðan tónleika við borgina í október.

11.- 18. október í Washington
Einn af hápunktum tónleikaferðar Sinfóníuhljómsveitar Íslands verða án efa tónleikar þeirra í Kennedy Center, einu þekktasta menningarhúsi Bandaríkjanna. Á sama tíma verður efnt til margvíslegra Íslandskynninga í höfuðborginni, ekki síst í tengslum við komu víkingaskipsins Íslendings þangað.

16.- til 25. október í New York
Nánast í beinu framhaldi af viðburðum í Washington má segja að hefjist Íslandsvika í New York sem hefur að miðpunkti opnun nýs Norræns húss í borginni, Scandinavia House, þann 21. október og komu víkingaskipsins Íslendings til borgarinnar tveimur dögum áður. Búist er við að allir þjóðhöfðingjar norðurlanda verði viðstaddir opnun Scandinavia House og að Hillary Clinton, forsetafrú Bandaríkjanna muni taka á móti víkingaskipinu Íslendingi. Þessa daga verður efnt til íslenskra tónleika, leiksýninga, fyrirlestra, ljóðakynninga, kvikmyndahátíðar, auk vöru- og þjónustusýninga.

20.- 27. október í Winnipeg
Íslendingar settust fyrst að í Gimli 21. október fyrir 125 árum og þá er hápunktur hátíðahaldanna í Manitoba. Í október verða tekin í notkun tvö hús sem tengjast Íslandi: Í Gimli verður opnað menningarsafnið Nýja Ísland, en íslensk stjórnvöld hafa lagt verulegt fé í það safn með beinu fjárframlagi. Gert er ráð fyrir að taka í notkun í október ný húsakynni fyrir íslenska bókasafnið við háskólann í Manitoba. Þá verða fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitarinnar í Vesturheimsferðinni næsta haust í Winnipeg í október mánuði. Októbermánuður verður nánast alveg íslenskur í Manitoba.

Að auki veitir Landafundanefnd stuðning til:

  • Margmiðlunarverkefnis OZ

Framleiðslu heimildarmynda fyrir bandarískan og kandískan markað:

  • Landafundurinn
  • Guðríðarsaga
  • Leifur-The Man who Changed the World
  • Guðríður
  • The Friendly Arctic
  • Tied by Blood/Frá Íslandi
  • Vindarnir í Keewatin
  • Vesturfararnir
  • Sybil's Song
  • From Ultima Thule

Gerð, þýðinga og útgáfu bóka í Norður Ameríku:

  • Vínlandsgátan
  • Nýja Ísland, Annað Ísland
  • History of the Icelandic Settlements
  • Ævisaga Stephans G. Stephanssonar
  • Íslendinga sögurnar

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum