Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2011 Forsætisráðuneytið

Vel staðið að sameiningu ráðuneyta

Ríkisendurskoðun telur að um flest hafi verið vel staðið að sameiningu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og dómsmála- og mannréttindaráðuneytis annars vegar og heilbrigðisráðuneytisins og félags- og tryggingamálaráðuneytisins hins vegar.

Ríkisstjórnin kynnti haustið 2009 áform um að endurskipuleggja opinbera þjónustu og sameina stofnanir. Áformin voru m.a. sett fram í tveimur fréttatilkynningum frá forsætisráðuneytinu (Áform um endurskipulagningu opinberrar þjónustu og Fækkun ráðuneyta úr 12 í 9). Í kjölfarið ákvað Ríkisendurskoðun að fylgjast grannt með því hvernig verkefnið yrði unnið með svonefndu samtímaeftirliti. Lagt hefur verið kapp á að vanda til verka við þessa endurskipulagningu og Ríkisendurskoðun hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að vel hafi verið staðið að sameiningu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og dómsmála- og mannréttindaráðuneytis í nýtt innanríkisráðuneyti og sameiningu heilbrigðisráðuneytisins og félags- og tryggingamálaráðuneytisins í nýtt velferðarráðuneyti.

Alþingi samþykkti framangreindar sameiningar í september sl. og þegar í kjölfarið var settur á fót samráðshópur viðkomandi ráðuneyta undir forystu forsætisráðuneytisins og með aðkomu  fjármálaráðuneytisins.  Hópurinn fjallaði um ýmsa þætti sem tengdust sameiningunni s.s. starfsmannamál og húsnæðismál. og settar voru á fót tvær verkefnastjórnir sem héldu utanum hvora sameiningu fyrir sig og tengslahópar hagsmunaaðila unnu með þeim.

Um þetta vinnulag segir m.a. í inngangi að skýrslu Ríkisendurskoðunar um stofnun innanríkisráðuneytis:. „Athugun Ríkisendurskoðunar á undirbúningi sameiningarinnar leiddi í ljós að ákvörðunin var tekin að vel athuguðu máli. Markmið hennar voru skýr, einkum þau sem lutu að faglegum þáttum og bættri þjónustu við almenning, og gert er ráð fyrir að sameinað ráðuneyti geti betur tekist á við aukin og flókin stjórnsýsluverkefni og að hagkvæmni muni aukast þegar til lengri tíma er litið. Skipulag og verkstjórn voru góð og ábyrgðarhlutverk skýr. Mikil áhersla var lögð á þátttöku starfsmanna í sameiningarferlinu og að þeir væru vel upplýstir um framvindu mála. Ríkisendurskoðun telur að vel hafi verið staðið að flestum þáttum við undirbúning og framkvæmd sameiningarinnar.“

Áfram unnið að umbótum innan Stjórnarráðsins

Á vettvangi Stjórnarráðsins er áfram unnið að umbótum. Fyrir jól skilaði nefnd um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands skýrslu, Samhent stjórnsýsla, þar sem lagðar eru til breytingar lögum og ýmsar umbætur á verklagi og samstarfi innan Stjórnarráðsins. Forsætisráðuneytið vinnur nú að innleiðingu á þessum tillögum. Þá stendur nú yfir samráðsferli vegna áforma um stofnun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis sem m.a. felur í sér viðtöl stjórnenda innan Stjórnarráðsins við fulltrúa fjölmargra atvinnugreinafélaga þar sem þau eru spurð álits á áformunum og því hvers atvinnulífið væntir af stjórnsýslunni?

Allt framangreint umbótastarf er unnið á grundvelli samstarfsyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum