Hoppa yfir valmynd
25. mars 2011 Forsætisráðuneytið

Frumvarp til nýrra laga um Stjórnarráð Íslands

Ríkisstjórnin samþykkti í dag að leggja fyrir Alþingi frumvarp til nýrra laga um Stjórnarráð Íslands en núgildandi lög eru frá árinu 1969. Hefur frumvarpið verið sent þingflokkum stjórnarflokkanna til umfjöllunar og afgreiðslu.

Frumvarpið er byggt á niðurstöðum og tillögum sem settar voru fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, tillögum starfshóps sem forsætisráðherra skipaði um viðbrögð við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, skýrslu þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingi og loks tillögum nefndar um endurskoðun á lögum um Stjórnarráð Íslands sem birtar voru í skýrslunni „Samhent stjórnsýsla“ sem gefin var út í desember 2010.

Við undirbúning frumvarpsins og vinnslu skýrslu nefndar um endurskoðun á lögum um Stjórnarráð Íslands var haft ítarlegt samráð og m.a. fundað með fjölda embættis- og starfsmanna innan Stjórnarráðsins, ýmsum fræðimönnum og sérfræðingum á sviði stjórnsýslu og stjórnsýsluréttar auk formanna stéttarfélaga starfsmanna Stjórnarráðsins. Gerð var sérstök rannsókn, Stjórnarráð og stjórnsýslukerfi annarra landa voru skoðuð og opið málþing haldið í október 2010 um fyrirhugaða endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands. Þá var áfangaskýrsla nefndarinnar, sem kom út í júní 2010, birt á heimasíðu forsætisráðuneytisins og almenningi gefinn kostur á að senda inn athugasemdir.

Efnisákvæði frumvarpsins ráðast í mörgum atriðum, rétt eins og ákvæði núgildandi laga um Stjórnarráð Íslands, af ákvæðum stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 enda grundvallast staða Stjórnarráðsins, þ.e. ráðherra og ráðuneyta þeirra, sem æðsta handhafa framkvæmdarvaldsins á ákvæðum stjórnarskrárinnar. Við vinnslu frumvarpsins hefur þess verið gætt í hvívetna að ákvæði þess séu í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar og óskráðar stjórnskipunarreglur.

Í grófum dráttum má skipta þeim breytingum sem felast í frumvarpinu í fernt:

Í fyrsta lagi er um að ræða breytingar sem snúa að heimildum stjórnvalda til að skipuleggja Stjórnarráðið. Í þeim efnum er helsta breytingin í frumvarpinu fólgin í því að lagt er til að sú löggjafarframkvæmd að telja ráðuneyti upp í lögum um Stjórnarráð Íslands verði aflögð. Þess í stað er lagt til að einungis verði kveðið á um hámarksfjölda ráðuneyta í Stjórnarráðinu, en ákvörðunarvald um það hvaða ráðuneyti skuli starfrækt, innan þeirra marka, hvíli hjá stjórnvöldum á hverjum tíma en talið verður að það sé í fyllra samræmi við 15. gr. stjórnarskrárinnar þar sem kveðið er á um að það sé á valdi stjórnvalda að ákveða tölu ráðherra.

Í frumvarpinu eru í öðru lagi lagðar til breytingar sem hafa það að markmiði að efla samhæfingu starfa á milli ráðherra. Er í þessum tilgangi lagt til að kveðið verði á um skyldu ráðherra til að leitast við að samhæfa stefnu sína og aðgerðir þegar málefni og málefnasvið skarast og auk þess kveðið sérstaklega á um skyldu forsætisráðherra til að hafa frumkvæði að samhæfingu starfa ef á þarf að halda. Í þessu sambandi er nánar kveðið á um það hvaða mál sé skylt að bera upp í ríkisstjórn og jafnframt kveðið á um starfsemi ráðherranefnda en slíkar nefndir geta þjónað mikilvægu hlutverki við samhæfingu starfa á milli ráðherra.

Í þriðja lagi er í frumvarpinu lagt til að kveðið verði á um stjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra með undirstofnunum og sjálfstæðum stofnunum og með eignum ríkisins þar á meðal eignum ríkisins í einkaréttarlegum lögaðilum en þessar skyldur hafa hingað til almennt verið byggðar á ólögfestum meginreglum.

Í fjórða lagi eru í frumvarpinu lagðar til ýmsar breytingar sem lúta að starfsmannahaldi og mannauðsmálum ráðuneyta. Lagt er til að ráðherrum verði skylt að skipa hæfnisnefndir sem hafi það hlutverk að meta hæfni umsækjanda við skipun í embætti ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra. Þá er lagt til að kveðið verði skýrar á um heimildir ráðherra til að flytja starfsmenn á milli ráðuneyta vegna tímabundinna verkefna og varanlega eftir atvikum t.d. þegar stjórnarmálefni eru flutt á milli ráðuneyta eða áherslur í starfsemi Stjórnarráðsins eða tímabundinn verkefni krefjast þess.

Loks er lagt til í því skyni að efla stefnumótun í ráðuneytum að ráðherrum verði heimilt að ráða, auk aðstoðarmanns, sérstakan ráðgjafa ráðherra án auglýsingar. Um ráðgjafa ráðherra gildir sama regla og um aðstoðarmann ráðherra að hann gegnir störfum svo lengi sem ráðherra ákveður, en þó ekki lengur en ráðherrann sjálfur. Vegna aðhalds í rekstri ráðuneyta er þó ekki gert ráð fyrir að þessi heimild taki gildi fyrr en að afloknum næstu alþingiskosningum.

Samhliða frumvarpinu er áformað að leggja fram frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum þar sem fagheiti ráðherra og ráðuneyta verði felld brott úr ýmsum sérlögum. Þess í stað verði vísað til “ráðherra” eða “ráðuneytis” sem fer með viðkomandi málaflokk samkvæmt forsetaúrskurði þar sem á þarf að halda. Verður forsetaúrskurður sem settur er að tillögu forsætisráðherra, með samþykki ríkisstjórnar, þar með megin réttarheimildin um skiptingu starfa á milli ráðherra eins og stjórnarskráin gerir ráð fyrir. Samhliða þessu verður núgildandi reglugerð um Stjórnarráð Íslands, sem framvegis mun þá verða í formi forsetaúrskurðar, tekin til heildarendurskoðunar og er sú vinna langt komin í samvinnu allra ráðuneyta.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum