Hoppa yfir valmynd
10. maí 2011 Forsætisráðuneytið

Niðurstaða rýnihóps í tilefni af úrskurði kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 3/2010 og næstu skref

Niðurstaða kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 3/2010 hefur verið tekin til ítarlegrar skoðunar og umjöllunar af hálfu forsætisráðuneytisins, ríkislögmanns og sérstaks rýnihóps sérfræðinga sem hefur skilað ráðuneytinu greinargerð um málið.

Þrátt fyrir að ýmis atriði hefðu getað réttlætt málshöfðun til ógildingar úrskurði kæruefndar jafnréttismála, m.a. að mati ríkislögmanns, er það vilji forsætisráðherra að freista þess að ljúka málinu með sátt. Ráðherra hefur því falið ríkislögmanni að hefja formlegar sáttaumleitanir í málinu.

Í niðurstöðu rýnihóps þriggja sérfræðinga, sem skipaður var Elsu S. Þorkelsdóttur, lögfræðingi, Gylfa Dalmann Aðalsteinssyni, dósent, og Sveinbjörgu Pálsdóttur, stjórnsýsluráðgjafa, kemur fram að mismunandi niðurstöður kærunefndar jafnréttismála annars vegar og ráðuneytisins hins vegar byggi fremur á því að ólíkum aðferðum hafi verið beitt við að meta hæfni umsækjenda en að hæfasti umsækjandinn hafi ekki verið skipaður.

Í greinargerðinni segir m.a.: „Eftir ítarlega athugun og greiningu á umsóknar- og skipunarferli skrifstofustjóra skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar og umfjöllun kærunefndar jafnréttismála um matsferlið, liggur fyrir að ólíkum aðferðum var beitt við að meta hæfni umsækjenda. Er það meginástæðan fyrir því að niðurstöðurnar voru svo ólíkar sem raun ber vitni, - fremur en að ráðningarferlið hafi verið með þeim hætti að hæfasti umsækjandinn hafi ekki verið ráðinn. Að baki liggja tveir hugmyndaheimar um það hvað sé hæfni og hvernig skuli greina hana og meta. Lykilatriðið hér er að byggja verður brú á milli þessara heima ef takast á að efla fagmennsku í ráðningum hjá Stjórnarráðinu um leið og réttinda umsækjenda í ráðningarferlinu er gætt. Þá má benda á að í flóknum álitamálum er mikilvægt að kærunefnd jafnréttismála kalli til sín sérfróða aðila, s.s. með sérþekkingu í ráðningum og ráðningarferli.“

Það er mat forsætisráðuneytisins og ríkislögmanns að fjölmörg atriði rökstyðji þá afstöðu að ekki hafi verið brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla við skipun í embættið. Skal í því sambandi einkum bent á eftirfarandi:

Ráðuneytið hafði sér til fulltingis ráðgjafa sem er sérfræðingur í stjórnunar- og mannauðsráðgjöf. Lagðar voru fyrir umsækjendur samræmdar spurningar í viðtölum. Eftir það voru fimm umsækjendur teknir í sérstök viðtöl. Sá sem var skipaður var efstur að stigum kærandi í fimmta sæti. Menntun hans, starfsreynsla, sérþekking og frammistaða í viðtölum skipaði honum í fyrsta sæti umsækjenda að mati ráðuneytisins og þess ráðgjafa sem með því starfaði. Í úrskurði kærunefndarinnar var menntun hans, starfsreynslu og sérþekkingu ekki gefinn nægur gaumur að mati ráðuneytisins. Virðist einnig sem nefndin hafi ekki gætt að því að afla upplýsinga um þau atriði sem fram komu í viðtölum við umsækjendur. Hæfni þess sem var skipaður var sérstaklega borin saman við tvo aðra umsækjendur af þeim fimm sem efstir voru. Ráðuneytið telur að skipun í embættið hafi verið reist á málefnalegum forsendum og að kynferði umsækjenda hafi hvergi legið til þar til grundvallar. Í úrskurði kærunefndarinnar er hvergi rökstutt hvaða líkur nefndin telji að fyrir liggi í því efni. Öll meðferð málsins sem og niðurstaða embættismanna og ráðgjafa sýnir að mati ráðuneytisins að val á umsækjendum var verið reist á hlutlægum og málefnalegum rökum. Ráðuneytið telur að kærunefndin hafi á engan hátt haft forsendur til að hafna og líta framhjá þeirri málsmeðferð sem viðhöfð var. Loks telur ráðuneytið að verulegir gallar séu á samanburði kærunefndarinnar á menntun, starfsreynslu, sérþekkingu og frammistöðu í viðtölum auk þess sem viðmiðun nefndarinnar varðandi kynjahlutföll meðal stjórnenda innan  Stjórnarráðsins og forsætisráðuneytisins var að mati ráðuneytisins ekki rétt.

Þrátt fyrir ofangreint er það vilji forsætisráðherra að freista þess að ljúka málinu með sátt og hefur ríkislögmaður þegar hafið sáttaumleitanir í málinu.

Jafnframt hefur forsætisráðuneytið þegar komið greinargerð rýnihóps þriggja sérfræðinga og þeim ábendingum sem þar koma fram á framfæri við öll ráðuneyti innan Stjórnarráðs Íslands og við velferðarráðuneytið og kærunefnd jafnréttismála sérstaklega varðandi atriði sem lúta að málsmeðferð kærunefndarinnar. Í framhaldi af því verður hafin vinna við það að samræma viðmið við skipanir og ráðningar þannig að koma megi í veg fyrir það í framtíðinni að byggt verði á mjög ólíkum aðferðum við að meta hæfni umsækjenda um störf hjá ríkinu.

„Það er von mín og trú að þrátt fyrir allt muni þetta mál reynast til hagsbóta fyrir jafnréttið og ráðningar hjá hinu opinbera almennt þannig að aukin sátt skapist um þau mikilvægu mál“ segir Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum