Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2011 Forsætisráðuneytið

Stofnunum og ráðuneytum þegar fækkað um 15%

Í yfirliti forsætisráðherra um sameiningar stofnana og ráðuneyta sem lagt var fram í ríkisstjórn í morgun kemur fram að ráðuneytum og stofnunum ríkisins hefur nú fækkað um 30. Fækkunin nemur um 15% af heildarfjölda stofnana í byrjun árs 2010 en verði fjögur frumvörp innanríkisráðherra, sem eru nú til meðferðar á Alþingi, að lögum í september mun stofnunum fækka um 10 til viðbótar. Nú hefur því um helmingur af upphaflegum áætlunum um fækkun ráðuneyta og stofnana um 60-80 á árunum 2010-2012 gengið eftir.

Í byrjun árs 2010 boðaði forsætisráðherra að raunhæft væri að fækka 200 stofnunum ríkisins um 30% - 40% á næstu tveimur til þremur árum, þ.e. fækkun um 60 til 80 stofnanir. Fækkunin ætti að koma fram á árunum 2010-2012 en í fjárlögum hefur verið fjallað um möguleika á fækkun stofnana sem byggjast á þessum áformum. Meðfylgjandi yfirlit sýnir stöðu mála nú rúmu ári eftir að fyrstu sameiningarnar tóku gildi þann 1. janúar 2010.

Stjórnarráðið

Ráðuneytum hefur verið fækkað úr 12 í 10 með stofnun velferðarráðuneytis og innanríkisráðuneytis með verkefnum sem áður voru í fjórum ráðuneytum, dóms- og kirkjumálaráðuneyti, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og félags- og tryggingamálaráðuneyti.

Áform eru uppi um frekari fækkun ráðuneyta í 9 með stofnun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.

Fjármálaráðuneytið

Skattstofum var fækkað úr níu í eina í byrjun árs 2010. Á móti stofnaði ráðuneytið eina nýja tímabundna stofnun Bankasýslu ríkisins.

Stofnunum ráðuneytisins hefur fækkað um 8 og einni verið bætt við þannig að samtals hefur stofnunum ráðuneytisins fækkað um 7.

Innanríkisráðuneytið

Hlutafélögin Flugstoðir ohf. og Keflavíkurflugvöllur ohf. voru sameinuð í opinbera hlutafélagið ISAVIA.

Frumvarp um sameiningu þriggja slysarannsóknastofnana, þ.e. sjóslysa, umferðarslysa og flugslysa hefur verið til umfjöllunar í samgöngunefnd síðan í mars sl.

Frumvarp um Farsýsluna, stjórnsýslustofnun á sviði samgöngumála hefur verið afgreitt úr samgöngunefnd en bíður annarrar umræðu.. Frumvarpið gerir ráð fyrir sameiningu umferðarstofu, flugmálastjórnar og stjórnsýsluhluta Vegagerðarinnar og Siglingamálastofnunar.

Frumvarp um Vegargerðina, framkvæmdastofnun á sviði samgöngumála hefur verið afgreitt úr samgöngunefnd en býður annarrar umræðu. Frumvarpið gerir ráð fyrir sameiningu framkvæmda- og rekstrarverkefna Vegagerðarinnar og Siglingastofnunar.

Stofnunum innanríkisráðuneytis hefur fækkað um eina en ljóst er að ef fjögur frumvörp innanríkisráðherra sem nú liggja fyrir þinginu verða samþykkt mun stofnunum ráðuneytisins fækka um 11.

Velferðarráðuneyti

Landlæknir og Lýðheilsustöð hafa verið sameinaðar í eina stofnun undir nafni Landlæknisembættisins. Átta heilbrigðisstofnanir á Vesturlandi voru sameinaðar í byrjun árs 2010. Tvær heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi voru sameinaðar í heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar 1. janúar 2010. St. Jósepsspítali var sameinaður Landsspítalanum 1. febrúar 2011. Við flutning málefna fatlaðra yfir til sveitarfélaga voru svæðisskrifstofur málefna fatlaðra lagðar niður og þannig fækkaði stofnunum um 8.

Stofnunum ráðuneytisins hefur fækkað um 18.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið

Hagþjónusta landbúnaðarins hefur verið lögð niður.

Stofnunum ráðuneytisins hefur fækkað um eina.

Utanríkisráðuneytið

Varnarmálastofnun hefur verið lögð niður.

Stofnunum ráðuneytisins hefur fækkað um eina.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum