Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2011 Forsætisráðuneytið

Staða 222 verkefna í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar – 164 verkefni afgreidd eða afgreidd að mestu

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá 10. maí 2009 birtast áherslur og markmið ríkisstjórnarinnar. Þar eru sérstaklega tilgreind 222 verkefni og aðgerðir sem ríkisstjórnin einsetti sér að vinna að á kjörtímabilinu sem nú er ríflega hálfnað.

Á vettvangi aðstoðarmanna ráðherra hefur skipulega verið haldið utan um framvindu ofangreindra verkefna og hafa þau verið flokkuð og metin með tilliti til stöðu þeirra hverju sinni. Þau verkefni sem hafa verið afgreidd eða afgreidd að mestu hafa verið flokkuð sem græn, þau verkefni sem hafa verið afgreidd að hluta eða eru í vinnslu hafa verið flokkuð sem gul og þau verkefni sem eru ekki hafin hafa verið flokkuð sem rauð.

Ýmis verkefni samstarfsyfirlýsingarinnar eru þess eðlis að þeim mun í raun aldrei ljúka þar sem þau fela í sér almenna stefnumörkun um breytingar án tiltekins lokamarkmiðs og því má þar ávallt gera betur. Slík verkefni eru auðkennd sem „viðvarandi verkefni“ og þau flokkuð í samræmi við árangur ríkisstjórnarinnar á viðkomandi sviðum fram til þessa.

Í meðfylgjandi yfirliti, sem lagt hefur verið fram í ríkisstjórn, má sjá að af verkefnunum og aðgerðunum 222 hafa 164 græna stöðu („afgreitt“ eða „afgreitt að mestu“), 58 hafa gula stöðu („afgreitt að hluta“ eða „í vinnslu“) og ekkert verkefni hefur rauða stöðu („ekki hafið“). Viðvarandi verkefnin eru 89 talsins.

Meðfylgjandi yfirlit verður hér eftir aðgengilegt á heimasíðu ríkisstjórnarinnar stjornarrad.is/rikisstjorn/framtidarsyn-adgerdir þar sem það verður uppfært reglulega. Nánari upplýsingar um stöðu einstakra verkefna má nálgast hjá aðstoðarmanni þess ráðherra sem ábyrgð ber á viðkomandi málaflokki.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum