Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2012 Forsætisráðuneytið

Athugasemd vegna samskipta forsætisráðuneytisins og Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra

Þann 21. nóvember 2011 sendu Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV)  bréf til forsætisráðuneytisins með ósk um að hitta forsætisráðherra. Í erindinu var óskað eftir aðstoð og þátttöku í aðgerðarhópi stjórnvalda og heimamanna til að bregðast við fólksfækkun og versnandi lífsgæðum íbúa í landshlutanum. Fyrr á síðasta ári hafði ríkisstjórnin brugðist við svipuðum aðstæðum tveggja annarra landshluta með því móti að setja saman aðgerðahóp og ráðast í aðgerðir í samráði við heimamenn. Á sama tíma var unnið að nýju vinnulagi í samskiptum ríkis og sveitarfélaga í samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga. Þetta voru sóknaráætlanir landshluta sem unnar voru á grunni stefnumarkandi ríkisstjórnarsamþykktar undir heitinu Ísland 2020.

Föstudaginn 3. febrúar sl. var fulltrúum SSNV boðið til fundar í forsætisráðuneytinu sem haldinn skyldi 9. febrúar sl. Það boð var afþakkað.

Þegar verkum aðgerðahópana á Suðurnesjum og Vestfjörðum var lokið var ákveðið að breyta vinnulagi og leggja krafta Stjórnarráðsins alls í að vinna með sveitarfélögum að gerð sóknaráætlana landshluta. Útfærsla þeirra var samþykkt til tíu ára af ríkisstjórninni, en árið 2011 var tilraunaár. Á því tilraunaári áttu fjögur ráðuneyti formleg samskipti við öll átta landshlutasamtökin. Kallað var eftir verkefnum og forgangsröðun frá sveitarfélögum í gegnum landshlutasamtök. Litið var á ferlið sem tækifæri fyrir landshluta til að hafa áhrif á fogangsröðun á fjárlögum. Sóknaráætlanir landshluta eru hluti af nýsköpun innan stjórnsýslunnar þegar kemur að úthlutun almannfjár til almannahags. Frá marsmánuði 2011 til desembermánaðar sama ár héldu fulltrúar ráðuneytanna fjölda funda með landshlutasamtökum um framtíðarfyrirkomulag úthlutunar almannafjár í krafti sóknaráætlana. Samtök íslenskra sveitarfélaga komu markvisst að gerð sóknaráætlananna. Auk þess héldu innanríkisráðherra og velferðarráðherra fundi að beiðni ríkistjórnar með öllum landshlutaformönnum og framkvæmdastjórum 25. nóvember 2011 vegna niðurskurðar á opinberum útgjöldum. Ennfremur var rætt nýtt vinnulag sóknaráætlana og möguleikar sem í því felast.

Ráðherranefnd um ríkisfjármál samþykkti í nóvember 2011 að 11 verkefni af sóknaráætlunum landshluta færu inn á fjárlög 2012.  Um var að ræða fjárfestingar- og rekstrarverkefni í öllum landshlutum.  Flest verkefnin eru til 4 ára og er áætlað að þau muni kosta alls um 460 m.kr. á tímabilinu. Af þessum 11 verkefnum voru tvö á Norðurlandi vestra; dreifnám í Húnaþingi vestra og lagning hitaveitu frá Reykjum við Húnavelli að Skagaströnd. Samanlagður kostnaður er áætlaður rúmar 90 m.kr.

Fulltrúar SSNV hafa, eins og önnur landshlutasamtök, verið þátttakendur í því lærdómsferli sem sóknaráætlanir landshluta eru. Bæði stjórnsýslustigin eru að tileinka sér nýjar leiðir við úthlutun opinbers fjár til framkvæmda í landshlutum. Vinnan að því er samvinna. Markmiðið með ferlinu hefur verið að efla landshlutana og koma reglu og staðfestu á samskipti Stjórnarráðsins við sveitarfélögin í gegnum landshlutasamtök. Fulltrúar allra landshlutasamtaka hafa verið boðaðir á fund í innanríkisráðuneytinu þann 23. febrúar næstkomandi til þess að ræða þá útfærslu sem stjórnvöld hafa lagt til við sóknaráætlanir landshluta 2013-2020. Þar vilja ráðuneytin undirbyggja sóknaráætlanirnar enn frekar og ræða aðrar breytingar til framfara.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum