Hoppa yfir valmynd
2. maí 2012 Forsætisráðuneytið

Reglur um mat á hæfni umsækjenda

Forsætisráðherra hefur í kjölfar samráðs í ríkisstjórn gefið út reglur um ráðgefandi nefndir sem eiga að meta hæfni umsækjenda um embætti við Stjórnarráð Íslands. Reglur þessar eru settar á grundvelli laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands en þar segir að að ráðherra skipi ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra að fengnu mati ráðgefandi hæfnisnefndar.

Við samningu reglnanna hefur meðal annars verið litið til sambærilegra ákvæða í reglum um störf dómnefndar sem fjallar um hæfni umsækjenda um dómaraembætti, nr. 620/2010, og reglum fyrir Háskóla Íslands, nr. 569/2009, nánar tiltekið ákvæða um akademíska starfsmenn.

Reglur um hæfnisnefndir eru meðal þeirra aðgerða sem taldar hafa verið nauðsynlegar í tilefni af tillögum og ábendingum sem fram hafa komið í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, skýrslu þingmannanefndar er fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndarinnar, skýrslu starfshóps sem forsætisráðherra skipaði til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar og skýrslu nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands („Samhent stjórnsýsla“).

Tilgangur reglna um hæfnisnefndir er að styrkja faglegan grundvöll við val á æðstu stjórnendum ráðuneyta og efla traust til stjórnsýslunnar. Í reglunum kemur fram að ráðherra skipar nefndarmenn, ákveður formann og gerir áætlun um ráðningarferli, að fenginni tillögu nefndarinnar.

Vinna nefndarinnar fer fram í samræmi við áðurnefnda áætlun um ráðningarferli. Þar liggja til grundvallar þeir þættir sem leiða má af auglýsingu um starfið, þeim reglum sem um það gilda og öðrum málefnalegum sjónarmiðum.

Hæfnisnefnd sem skal vera sjálfstæð í störfum sínum skal skila skýrslu til ráðherra um störf sín. Þar skal koma fram með rökstuddum hætti hvaða umsækjendur séu að mati nefndarinnar hæfastir, miðað við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar við skipun í embættið. Jafnframt skal með sama hætti koma fram hvort og þá hverjir aðrir af umsækjendum hafi verið taldir koma til álita og hverjir ekki.

Þegar skýrsla hæfnisnefndar liggur fyrir metur ráðherra hvort ástæða sé til frekari gagna- eða upplýsingaöflunar, svo sem í formi viðtala, áður en ákvörðun er tekin um skipun í embætti.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum