Hoppa yfir valmynd
22. maí 2012 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra á leiðtogafundi NATO

Leiðtogafundur NATO í Chicago
Leiðtogafundur NATO í Chicago

Forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, tók þátt í leiðtogafundi NATO sem hófst á sunnudag í Chicago.  Barack Obama Bandaríkjaforseti var gestgjafi fundarins en Chicago er heimaborg hans.

Leiðtogar hinna 28 aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins  ræddu á sunnudag m.a. um endurskoðaða varnar- og fælingarstefnu bandalagsins.  Stefnan byggir á þeim grundvallarsjónarmiðum sem samþykkt voru á leiðtogafundinum í Lissabon árið 2010, m.a. sameiginlegum vörnum og öryggi.  Áhersla er einnig lögð á virka þátttöku í afvopnunarviðræðum, alþjóðlega fækkun kjarnavopna og traust samstarf við ríki utan bandalagsins sem tilbúin eru til að taka þátt í slíkri stefnumörkun, t.d. Rússland.

Í gær funduðu leiðtogarnir í um 50 ríkja hópi, um málefni Afganistan, ásamt fulltrúum alþjóðastofnana, forseta Afganistan svo og  forystumönnum þeirra ríkja sem taka þátt í aðgerðum í Afganistan sem hluti af alþjóðlegum öryggis- og uppbyggingarsveitum (International Security and Assistance Force, ISAF).  Markmið hafa verið sett um að alþjóðlegu sveitirnar verði dregnar út úr Afganistan fyrir árslok 2014 og Afganir taki sjálfir við sínum öryggismálum.  Sú yfirfærsla er þegar hafin í áföngum.  Áhersla hefur verið lögð á það að við brotthvarf alþjóðaliðsins verði reynt að tryggja sem kostur er að framhald verði á uppbyggingarstarfi, eflingu mannréttinda og staða kvenna bætt.  Forsætisráðherra talaði sérstaklega fyrir þessum áherslum og hefur Ísland beitt sér fyrir þeim á vettvangi NATO.

Einnig var í gær haldinn sérstakur fundur leiðtoga NATO ríkjanna með þeim þrettán helstu samstarfsríkjum, sem hafa tekið þátt í aðgerðum og samstarfi með bandalaginu undanfarin ár, en þar á meðal eru Svíþjóð og Finnland.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum