Hoppa yfir valmynd
12. júní 2012 Forsætisráðuneytið

Skýrsla um ráðstöfun lands og landsréttinda innan þjóðlendna og tekna af gjöldum fyrir slík réttindi

Yfirlitskort yfir þjóðlendur á svæðum 1-7
Yfirlitskort yfir þjóðlendur á svæðum 1-7

Forsætisráðherra hefur gefið Alþingi skýrslu um ráðstöfun lands og landsréttinda innan þjóðlendna og tekna af gjöldum fyrir slík réttindi í samræmi við 5. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

Í skýrslunni kemur fram að landi og landsréttindum hefur ekki verið ráðstafað í miklum mæli á þeim tíma sem liðinn er frá gildistöku laganna.

Þau mál sem komið hafa upp á undanförnum árum vegna umsýslu þjóðlendna hafa verið af ýmsum toga. Má þar einkum nefna mál sem snúa að umsagnarhlutverki ráðuneytisins við skipulagsvinnu sveitarfélaga á svæðum sem falla innan þjóðlendna og heimildum til ýmissa lagfæringa og viðbóta á skálum.

Leyfi til nýtingar auðlinda innan þjóðlendna hefur einnig verið mikilvægt verkefni. Í þeim efnum hefur ráðuneytið fylgt þeirri varfærnu stefnu að heimila að meginstefnu til engin ný not lands eða landsréttinda í þjóðlendum. Talið hefur verið rétt að breyta ekki út frá því á meðan ekki liggur fyrir skýr opinber stefnumörkun um nýtingu þjóðlendna. Slíkrar stefnumörkunar má m.a. vænta af starfi auðlindastefnunefndar en skýrsla hennar á að liggja fyrir ekki síðar en 1. júlí næstkomandi.

Þrátt fyrir það hefur ráðuneytið veitt nokkur leyfi fyrir nýtingu auðlinda í þjóðlendum. Afstaðan hefur verið sú að veita leyfi að fengnu rannsóknar- eða nýtingarleyfi Orkustofnunar með þeim fyrirvara að samið verði síðar um endurgjald fyrir nýtinguna þegar auðlindastefnunefnd hefur lokið stöfum. Þá mun liggja fyrir með hvaða hætti ætlunin er að innheimta gjald fyrir nýtingu auðlinda í eigu ríkisins. Því hafa engar tekjur verið innheimtar fyrir nýtingu lands eða landsréttinda í þjóðlendum sem gera þarf grein fyrir í skýrslu til Alþingis.

Auk ofangreindra verkefna hefur verið unnið að því að skrá þjóðlendur í fasteignaskrá, enda teljast þjóðlendur fasteignir í skilningi laga. Slík skráning er einnig forsenda þess að hægt sé að skilgreina og veita lóðarréttindi í þjóðlendum og því mikilvægt að hraða því starfi eins og kostur er.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum