Hoppa yfir valmynd
10. október 2012 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra ávarpar þing BSRB

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, ávarpaði þing BSRB sem sett var í dag, 10. október 2012. Samtökin fagna sjötíu ára afmæli sínu á þessu ári og er þingið haldið undir kjörorðunum „Framtíð byggð á jöfnuði og velferð“.

Jóhanna sagði m.a. í ávarpinu að kynbundinn launamunur mælist enn allt of hár og hún hefði vonast eftir meiri og áþreifanlegri árangri. „Þeim árangri skulum við ná.“

Fram kom í máli hennar að ríkisstjórnin hafi samþykkt í síðustu viku að eyða kynbundnum launamun innan allra ráðuneyta. „Að því er nú unnið og fljótlega verða aðgerðir kynntar í því efni. Ríkisstjórnin samþykkti jafnframt að í framhaldi af því verði farið í sambærilegar aðgerðir hjá öllum stofnunum ráðuneytanna og unnin aðgerðaráætlun þar að lútandi í samráði við forstöðumenn þeirra.“

Jóhanna gat um greiningu  Þjóðmálastofnunar H.Í. á þróun launamunar kynjanna fyrir hrun annars vegar og í tíð núverandi ríkisstjórnar hins vegar. Greiningin, sem byggir á gögnum Hagstofunnar,  sýnir minnkandi launamun, úr 30-35% í 13-20%, eftir því við hvaða launahugtak er miðað.

Jóhanna vek orðum að ríkisumsvifum og sagði að ríkustu samfélögin sem verji umtalsverðum hluta þjóðartekna til velferðar og samneyslu, og jafnvel meiru en Íslendingar. Þessi samfélög, eins og au norrænu, raði sér í efstu sæti á mælikvarða samkeppnishæfni, jöfnuðar og réttlætis.

„Í gær barst okkur síðan frá Hagstofu Íslands, afar ánægjuleg staðfesting á því að ráðstöfunartekjur Íslendinga eru aftur farnar að aukast og það umtalsvert. Samkvæmt tölum Hagstofunnar jukust ráðstöfunartekjur heimilana um 9,6% milli áranna 2010 og 2011 og kaupmáttur ráðstöfunartekna jókst um 5,1%.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum