Hoppa yfir valmynd
18. október 2012 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra: Breytingar á stjórnarskrá í höndum fólksins


„Tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá fela í sér mikilvægar umbætur í stjórnskipan landsins. Eigum við að leggja þær tillögur til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Svar mitt við þeirri spurningu er tvímælalaust JÁ, það eigum við að gera. Munum við gera það? Svarið við því er í höndum kjósenda þessa lands næstkomandi laugardag.“
Þetta er meðal þess sem fram kom í ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í sérstökum umræðum á Alþingi í dag um stjórnarskrármál og þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs sem fram fara á laugardag 20. október.

Jóhanna sagði jafnframt: „Ljóst er að verði niðurstaðan neikvæð verður ekki unnt að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá fyrir næstu alþingiskosningar. Frá mínum sjónarhóli væri það sorglegur endir á því merka lýðræðisferli sem málið hefur fengið að þróast og þroskast í, ferli sem víða hefur vakið verðskuldaða athygli og gæti orðið örðum þjóðum til eftirbreytni.
Neikvæð niðurstaða við fyrstu spurningunni útilokar hins vegar ekki að tilteknar afmarkaðar breytingar verði gerðar á stjórnarskránni fyrir næstu alþingiskosningar í samræmi við afstöðu þjóðarinnar  til  hinna fimm spurninganna sem jafnframt verða bornar upp í atkvæðagreiðslunni.“

Jóhanna sagði einnig: „Gefið er í skyn að ef samþykkt verður að leggja tillögurnar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá megi ekki við neinu hrófla sem þar stendur við þinglega meðferð málsins.
Þetta er vitaskuld ekki rétt. Verði niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar jákvæð mun frumvarpið verða lagt fyrir Alþingi til efnislegrar umfjöllunar og afgreiðslu. Í því þinglega ferli kunna breytingar að verða gerðar eins og raunar kemur skýrt fram á kjörseðlinum sjálfum.“

Jóhanna sagði síðan að Alþingi bæri skylda til að taka niðurstöður varðandi sérhverja spurningu í þjóðaratkvæðagreiðslunni til gaumgæfilegrar skoðunar og afgreiðslu til að bregðast við þeim þjóðarvilja sem þar muni birtast.

Forsætisráðherra hvatti alla kosningabæra Íslendinga til að mæta á kjörstað næstkomandi laugardag og nýta atkvæðisrétt sinn. Einn meginkjarninn í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá væri aukið beint lýðræði, og flutningur valds frá stjórnmálaflokkunum til fólksins.
„Góð þátttaka í komandi atkvæðagreiðslu mun undirstrika vilja fólks til slíkra breytinga. Látum ekki þetta tækifæri fram hjá okkur fara.“

Ræðu forsætisráðherra er að finna í heildi sinni hér á vef forsætisráðuneytisins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum