Hoppa yfir valmynd
25. október 2012 Forsætisráðuneytið

Álit umboðsmanns Alþingis vegna kvörtunar Geysir Green Energy ehf. 

Forsætisráðuneytið hefur farið yfir álit umboðsmanns Alþingis dagsett 22. október sl. Álitið varðar afskipti íslenskra stjórnvalda í tengslum við sölu Geysir Green Energy ehf. á hlutum þess í HS Orku hf. til Magma Energy Sweden AB.

Umboðsmaður Alþingis kemst að þeirri niðurstöðu að ummæli í yfirlýsingu ríkisstjórnar vegna orku- og auðlindamála frá 27. júlí 2010 og bréfum og tilkynningum sem sendar voru af hálfu stjórnvalda í kjölfarið hafi ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.  Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sagði m.a. að hún hefði ákveðið að rannsaka tildrög þess að HS-Orka væri komin í meirihlutaeigu einkaaðila með það fyrir augum að hægt væri að vinda ofan af þeirri niðurstöðu.

Umboðsmaður Alþingis segir að frá sjónarhóli Geysis Green Energy ehf. hafi ekki verið ljóst hvort ríkisstjórnin og efnahags- og viðskiptaráðherra, sem fór með málefni erlendrar fjárfestingar, væru að fjalla um málið sem æðstu handhafar stjórnsýsluvalds í viðkomandi máli eða setja fram pólitíska stefnumörkun sem eftir atvikum kynni að leiða til lagabreytinga. Bendir hann á að þegar lögbundnu ferli máls ljúki hafi aðilar þess hagsmuni af því og verði að geta treyst því að úr málum þeirra verði leyst í samræmi við gildandi lög.  

Forsætisráðuneytið hefur farið yfir álitið og mun í samræmi við það  sjá til þess, ef upp koma hliðstæð mál, að dregin verði skýrari mörk milli pólitískrar stefnumótunar sem leitt getur til lagasetningar og meðferðar einstakra stjórnsýslumála á grundvelli gildandi laga. Nýsett lög um Stjórnarráð Íslands  nr. 115/2011 skýra einnig betur en áður þetta tvíþætta hlutverk ráðuneyta.

Til upplýsingar má geta þess að efnahags- og viðskiptaráðuneytið áréttaði gagnvart Geysi Green Energy hinn 22. október 2010 að stjórnsýslumálinu væri lokið en þá hafði nefnd um orku- og auðlindamál skilað ítarlegri skýrslu um lagalegar hliðar málsins. Starfshópur um lagaramma orkumála  skilaði síðar skýrslu þar sem ekki var mælt með sérstakri lagasetningu í þessu efni. Ríkisstjórnin beitti sér hins vegar fyrir því að lífeyrissjóðirnir gerðust eignaraðilar að HS-Orku.  Jafnframt hefur ríkisstjórnin boðað lagafrumvarp sem tryggja muni að auðlindarenta, sem kunni að verða til hjá orkufyrirtækjum, verði skattlögð sérstaklega til að sjá til þess að þjóðin njóti arðs af auðlindum sínum.

Unnt er að lesa álit umboðsmanns Alþingis á vef embættisins. Sömuleiðis er hér vísað til skýrslu nefndar um orku- og auðlindamál sem kynnt var í september 2010, skýrslu starfshóps um lagaramma orkumála og skýrslu auðlindastefnunefndar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum