Hoppa yfir valmynd
24. október 2012 Forsætisráðuneytið

Styrkir úr Jafnréttissjóði eftir þriggja ára hlé

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, við afhendingu styrkja úr Jafnréttissjóði
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, við afhendingu styrkja úr Jafnréttissjóði

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, afhenti í dag 5 styrki úr Jafnréttissjóði, samtals 9 milljónir króna.

Þetta eru fyrstu styrkveitingarnar úr Jafnréttissjóði í þrjú ár og hefur starfsemi sjóðsins nú verið endurvakin eftir þriggja ára hlé í kjölfar hrunsins.

Styrkveitingin fór fram á málþinginu Þekking í þágu jafnréttis sem haldið var í Hörpu í dag, 24. október, á Kvennafrídeginum.

Jóhanna ávarpaði gesti og sagði meðal annars: „Jafnréttissjóður er mikilvægur liður í því að efla hvers kyns rannsóknir á sviði jafnréttismála, en þar eins og á öðrum sviðum er traust þekking forsenda skýrrar stefnumótunar og skilvirkra aðgerða.“

Þeir sem styrkina hlutu að þessu sinni eru:

  • Ásta Jóhannsdóttir, kynja- og mannfræðingur og doktorsnemi. Heiti verkefnis: Áhrif kyngervis og stéttar á mótun sjálfsmyndar ungs fólks. Styrkupphæð: 2,0 milljónir króna.
  • Arnar Gíslason, kynjafræðingur og Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands. Heiti verkefnis: Karlavæðing kvennabaráttunnar: Um karla í jafnréttisbaráttu. Styrkupphæð: 1,5 milljón króna.
  • Guðný Björk Eydal, prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og Ingólfur V. Gíslason, dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands. Heiti verkefnis: Jafnrétti og fæðingarorlof 2009-2012 – hvernig haga íslenskir foreldrar atvinnuþátttöku og umönnun barna sinna? Styrkupphæð: 2,0 milljónir króna.
  • Hildur Fjóla Antonsdóttir, kynja- og þróunarfræðingur og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, lögfræðingur. Heiti verkefnis: Meðferð nauðgunarmála í réttarkerfinu. Styrkupphæð: 2,0 milljónir króna.
  • Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði og Kolbeinn Stefánsson, aðjúnkt í félagsfræði við Háskóla Íslands. Heiti verkefnis: Konur, karlar, kreppa og endurreisn.
    Styrkupphæð: 1,5 milljón króna.

Í ávarpi sínu gat Jóhanna einnig um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að flýta gerð jafnlaunaúttekta í öllum ráðuneytum og síðar í öllum stofnunum ríkisins. Í einhverjum tilvikum hafi verið tilefni til að leiðrétta laun í kjölfarið, ekki aðeins til að eyða launamun kynja heldur einnig milli starfsmanna almennt. Kynbundnum launamun innan allra ráðuneyta verði þannig eytt með tafarlausum aðgerðum.

Jóhanna sagði jafnframt að margt hefði áunnist. Lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og lífeyrissjóða kæmi að fullu til framkvæmda á næsta ári. Einnig væri nú hlutur kynjanna jafn í ríkisstjórn og í æðstu embættum ríkisins.

Jóhanna sagði það sérstakt gleðiefni að Alþjóða efnahagsráðið (World Economic Forum) hefði nú fjórða árið í röð skipað Íslandi í efsta sæti á lista yfir jafna stöðu kynjanna. „Það er athyglisvert að Ísland bætir stöðu sína umtalsvert á milli ára og skorar núna 0, 8640 stig og vantar samkvæmt þessari aðferðarfræði því aðeins 0,1360 stig til að ná fullkomnu jafnrétti. Þetta er mér sérstakt gleðiefni.“

Á málþinginu kynnti Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar gegn launamun kynja. Þá var einnig undirrituð viljayfirlýsing með heildarsamtökum aðila vinnumarkaðarins um samvinnu við stjórnvöld um að stórefla baráttuna fyrir launajafnrétti kynja, í samræmi við aðgerðaáætlunina.

Ávarp forsætisráðherra við afhendingu styrkjanna úr Jafnréttissjóði er einnig að finna hér á vef forsætisráðuneytisins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum