Hoppa yfir valmynd
5. desember 2012 Forsætisráðuneytið

Vandaðri undirbúningur lagasetningar

Gæði lagasetningar og leiðir til að stuðla að vönduðu og sveigjanlegu regluverki til hagsbóta fyrir almenning og atvinnulífið hafa verið mikið til umræðu á alþjóðlegum vettvangi undanfarin ár. Íslensk stjórnvöld hafa fylgst grannt með þróun á þessu sviði og reynt eftir föngum að nýta reynslu erlendis frá á heimavettvangi. M.a. hefur verið sett á fót í forsætisráðuneytinu sérstök skrifstofa löggjafarmála sem rýnir lagafrumvörp sem unnin eru innan Stjórnarráðsins áður en þau eru lögð fram á Alþingi. Í ljósi reynslunnar af því starfi hefur forsætisráðuneytið að undanförnu unnið að stefnumótun varðandi vandaðan undirbúning lagasetningar í samráði m.a. við önnur ráðuneyti. Er afrakstur þeirrar vinnu nú lagður fram á Alþingi í þremur mismunandi þingskjölum.

Í fyrsta lagi er þar um að ræða skýrslu forsætisráðherra um vandaða lagasetningu, áhrif laga um opinberar eftirlitsreglur og störf ráðgjafarnefndar skv. lögum nr. 27/1999. Þar er gefið rækilegt yfirlit yfir gæðastarf við lagasetningu hér á landi á undanförnum árum og það borið saman við reynslu annarra þjóða.

Í öðru lagi tillaga til þingsályktunar um undirbúning lagasetningar. Þar er lögð til stefna varðandi vandaðan undirbúning lagasetningar sem byggir á þeim grunni sem lagður hefur verið af hálfu Alþingis og stjórnvalda á síðustu árum. Jafnframt er tekið tillit til nýjustu tilmæla OECD á þessu sviði og reynslu nágrannaríkja. Lögð er áhersla á marvissa áætlanagerð af hálfu ríkisstjórnar og Alþingis við undirbúning og meðferð lagafrumvarpa, gagnsæja og lýðræðislega stefnumótun, samráð og mat á áhrifum, mikilvægi þess að lög sæti reglulega endurskoðun með tilliti til þess hvort markmið hafi náðst með hagkvæmum hætti og bætt samstarf allra hlutaðeigandi aðila.

Í þriðja lagi frumvarp til laga um brottfall laga um opinberar eftirlitsreglur, nr. 27/1999. Lögin, sem lagt er til að felld verði brott, byggjast á því að sérstaka áherslu beri að leggja á mat á nauðsyn nýrra eftirlitsreglna. Ekki er lengur talin ástæða til þess að mati ráðuneytisins að hafa sérstaka lagalega umgjörð um slíkar reglur heldur verði þær metnar með sama hætti og aðrar lagareglur. Er það í samræmi við þá áherslu á alþjóðavettvangi að meta öll helstu áhrif lagafrumvarpa og tillagna að reglugerðum á almannahagsmuni svo sem á umhverfið, jafnrétti kynjanna og samkeppnishæfni atvinnulífs. Öll frumvörp eigi í grunninn að sæta slíku mati en ekki einvörðungu þau sem snerta atvinnulífið.

Sjá nánar

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum