Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2013 Forsætisráðuneytið

Veflesari á vefjum Stjórnarráðsins

Skrifað undir samning um notkun á veflesaranum
Skrifað undir samning um notkun á veflesaranum

Forsætisráðuneytið hefur undirritað samning við Blindrafélagið –  samtök blindra og sjónskertra á Íslandi um að bjóða upplestur á íslensku efni á vefsíðum Stjórnarráðs Íslands með svonefndum veflesara.

Um er að ræða hugbúnað (IVONA  - iWebReader) sem bætir aðgegni blindra og sjónskertra að textuðu efni á vefjum allra ráðuneytanna. Veflesarinn nýtist einnig lesblindum og þeim sem kjósa að hlusta frekar en að lesa.

Samningurinn er gerður í samræmi við yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar sem stuðlar að bættu aðgengi, m.a. blindra og sjónskertra, að því efni sem er að finna á opinberum vefjum. Stefnt er að því að allt efni verði aðgengilegt á mismunandi formi t.d. sem talmál eða tákn auk venjulegs texta. Í stefnunni er auk þess er kveðið á um aðrar ráðstafanir sem auðvelda aðgengi.

Með samningnum hefur forsætisráðuneytið f.h. Stjórnarráðs Íslands tryggt afnot allra ráðuneyta af veflesara sem þulið getur textað efni af vefsíðum stjórnarráðsins.

Samningurinn er gerður til eins árs en að þeim tíma liðnum verður hann endurskoðaður. Samningurinn kveður á um að ráðuneytin geti nýtt veflesarann á allt að 20 vefjum stjórnarráðsins samtímis. Auk ráðuneytanna má gera ráð fyrir að hann verði nýttur á vefjum á borð við starfatorg.is og kosning.is svo nokkuð sé nefnt.

Innanríkisráðuneytið hefur nýtt veflesarann í tilraunaskyni frá því í nóvember síðastliðnum. Í dag setti forsætisráðherra veflestur í gang á vef forsætisráðuneytisins og á næstu dögum verður einnig hægt að nýta sér veflesarann á öðrum ráðuneytisvefjum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum