Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2013 Forsætisráðuneytið

Grunnur lagður að grænu hagkerfi

Efling græna hagkerfisins á Íslandi
Efling græna hagkerfisins á Íslandi

Verkefnastjórn undir forystu forsætisráðuneytisins, hefur skilað skýrslu um forgangsröðun verkefna sem sem miða að því marki að efla grænt hagkerfi á Íslandi. Í skýrslunni er lagt til að 26 af 50 tillögum, sem fram koma í samþykktri þingsályktunartillögu, verði settar í forgang á þessu ári. Meðal tillagna sem njóta forgangs er stofnun og rekstur græns fjárfestingarsjóðs á vegum Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins í samstarfi við innlenda og erlenda fjárfesta. Á fjárlögum fyrir árið 2013 er gert ráð fyrir 500 milljóna króna stofnframlagi til sjóðsins.

Forsaga málsins er að Alþingi ályktaði árið 2012 að fela forsætisráðherra að stýra mótun aðgerðaáætlunar um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi. Í samræmi við það skipaði forsætisráðherra verkefnastjórn sem ætlað var það hlutverk að undirbúa gerð aðgerðaáætlunar um eflingu græns hagkerfis á Íslandi og forgangsraða þeim verkefnum sem fram koma í 50 töluliðum í þingsályktuninni ásamt því að leggja mat á umfang verkefnanna og þann kostnað sem vinna við þau útheimtir. Með þátttöku allra ráðuneyta er stuðlað að því að efling græna hagkerfisins verði forgangsverkefni í atvinnustefnu íslenskra stjórnvalda.

Leggur verkefnastjórnin til að 26 af 50 tillögum, sem fram koma í þingsályktuninni, verði settar í forgang á þessu ári. Þar af eru 18 tillögur sem verkefnastjórnin telur að unnt sé að sinna án aukinna fjárframlaga. Aðrar átta tillögur falla undir þá flokka sem fram koma í fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar og á fjárlögum fyrir árið 2013. Eftir standa 17 tillögur sem lagt er til að metnar verði í síðari áfanga, þ.e. á árinu 2014, þó þannig að þegar á árinu 2013 verði hugað að undirbúningi fjögurra þeirra.

Fjallað er um allar tillögurnar og fogangsröðunina í skýrslunni.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum