Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2013 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra hittir forseta Kína og setur viðskiptaþing

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra Íslands og Xi Jinping forseti Kína
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra Íslands og Xi Jinping forseti Kína

Viðskiptaþing haldið í samstarfi Íslands og Kína í Peking

Annar dagur opinberrar heimsóknar forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, hófst með opnun viðskiptaþings sem haldið var í samstarfi sendiráðs Íslands í Kína, Íslandsstofu og CCPIT, sem er kínversk systurstofnun Íslandsstofu.

Forsætisráðherra opnaði viðskiptaþingið með ávarpi, ásamt Wen Jifei, yfirmanni CCPIT. Yfirskrift viðskiptaþingsins var „Íslensk-kínversk fríverslun: Hvatning til vaxtar“. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og sendiherra Nýja-Sjálands fluttu erindi, en Nýja-Sjáland var fyrsta iðnríkið sem gerði fríverslunarsamning við Kína og hefur hann nú verið í gildi í um fimm ár. Lýsti nýsjálenski sendiherrann góðri reynslu og margföldun viðskipta með vöru og þjónustu í tengslum við fríverslunarsamning ríkjanna.

Stjórnendur íslenskra fyrirtækja, sem eru í viðskiptasendinefnd opinberu heimsóknarinnar, fluttu einnig erindi. Þau  fjölluðu um viðhorf viðskiptalífsins til samningsins og viðskiptatækifæra sem í honum felast.

Viðskiptaþingið var sótt af um 60 fulltrúum íslenskra fyrirtækja, ásamt ríflega 200 fulltrúum kínverskra fyrirtækja og stofnana, sem sýnir mikinn áhuga á auknum viðskiptum og þeim tækifærum sem fríverslunarsamningurinn hefur í för með sér.

  • Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra Íslands og Xi Jinping forseti Kína
    Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra Íslands og Xi Jinping forseti Kína

Fundur með forseta Kína – endurreisn á Íslandi vekur eftirtekt

Forsætisráðherra átti fund með forseta Kína, Xi Jinping, sem tók formlega við embætti í síðasta mánuði.  Þau  ræddu tvíhliða samskipti ríkjanna og þau tækifæri sem fríverslunarsamningur og aukinn áhugi fyrirtækja myndi hafa í för með sér.  Forsætisráðherra ræddi við forseta um mannréttindamál og alþjóðlegar skuldbindingar, og lýsti sérstakri ánægju með aukið samstarf ríkjanna á sviði jafnréttismála, sem komist hefði á eftir heimsókn fyrrverandi forsætisráðherra Kína til Íslands á síðasta ári.

Aukið samstarf varðandi rannsóknir á norðurslóðum, meðal annars vegna nýrra tækifæra og breytinga á siglingaleiðum, svo og langvarandi samstarf  Íslands og Kína í jarðhitamálum og varðandi virkjun jarðvarma í Kína var einnig rætt á fundinum.

Forseti Kína hrósaði sérstaklega  góðum árangri Íslands við endurreisn efnahagslífsins eftir hrun fjármálakerfisins og kvað stjórnvöld hafa náð árangri sem önnur Evrópuríki gætu litið til.

Forsetinn staðfesti jafnframt vilja Kína til að eiga samstarf og samráð við Ísland á sviði vinnumála í samræmi við yfirlýsingu forsætisráðherranna á fyrsta degi heimsóknarinnar í gær.

„Ég fann að forseti Kína var mjög áhugasamur, bæði um Ísland og þau tækifæri sem skapast í framtíðinni. Hann þekkir vel okkar samstarf í jarðhitamálum og hafði hitt forseta Íslands í embætti sínu sem varaforsætisráðherra áður.  Það var því mjög gott samtal sem við áttum og jákvætt,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, að loknum fundinum.

Fundað á viðskiptaþingi
Fundað á viðskiptaþingi
Viðskiptaþing „Íslensk-kínversk fríverslun: Hvatning til vaxtar“
Viðskiptaþing „Íslensk-kínversk fríverslun: Hvatning til vaxtar“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum