Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2013 Forsætisráðuneytið

Fundir forsætisráðherra með formanni utanríkismálanefndar Kína og fyrrverandi forsætisráðherra Kína

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Fu Ying, formaður utanríkismálanefndar kínverska alþýðuþingsins
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Fu Ying, formaður utanríkismálanefndar kínverska alþýðuþingsins

Fundur með formanni utanríkismálanefndar kínverska alþýðuþingsins, frú Fu Ying

Á öðrum degi opinberrar heimsóknar sinnar í Kína tók Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á móti Fu Ying, sem er fyrsta konan sem gegnir stöðu formanns utanríkismálanefndar kínverska alþýðuþingsins og jafnframt einn af varautanríkisráðherrum í kínverska utanríkisráðuneytinu. Hún og sendinefnd hennar komu til fundar við ráðherra og ræddu þær um stöðu kvenna í Kína, jafnréttismál og alþjóðlegar skuldbindingar, svo og það samstarf í jafnréttismálum sem nú hefur hafist milli Íslands og Kína. Fu Ying er fyrirmynd margra kvenna í Kína, en hún var áður sendiherra Kína í Bretlandi og þar áður í Ástralíu og á Filippseyjum.

Kurteisisheimsókn til fyrrverandi forsætisráðherra Kína, Wen Jiabao

Forsætisráðherra átti einnig stuttan fund með fyrrverandi forsætisráðherra, Wen Jiabao, sem kom til Íslands í opinbera heimsókn á síðasta ári, en hann lét af störfum í mars.  Þakkaði forsætisráðherra sérstaklega stuðning hans við að ljúka viðræðum um fríverslunarsamninginn, sem nú hefði verið undirritaður.

Wen Jiabao lýsti góðum minningum sínum frá heimsókninni til Íslands og áhuga sínum á landinu, jarðfræði þess og mikilvægi samstarfsins um jarðhitanýtingu, sem hefði nýst báðum aðilum vel.  Loks minntust forsætisráðherrarnir umræðna sinna á síðasta ári um aukið samstarf á sviði skáklistarinnar, en það hefur meðal annars haft mjög jákvæð áhrif á samskipti kínverskra og íslenskra skákmanna og leitt til gagnkvæmra heimsókna og móta undanfarin ár.  

Forsætisráðherra er nú komin til Sjanghæ þar sem hún heldur áfram dagskrá opinberrar heimsóknar sinnar á morgun.

Sjá einnig

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum