Hoppa yfir valmynd
16. ágúst 2013 Forsætisráðuneytið

Yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands vegna hótana Evrópusambandsins í garð Færeyinga og Íslendinga

Ísland á mikilla hagsmuna að gæta hvað varðar stjórnun ýmissa sameiginlegra fiskistofna á Norðaustur-Atlantshafi. Íslensk fiskveiðistjórnun hefur um langt árabil tryggt sjálfbæra nýtingu sjávarauðlindarinnar ólíkt því sem gildir um fiskveiðistefnu ESB.

Á undanförnum mánuðum hefur Evrópusambandið (ESB) ítrekað hótað að beita þvingunaraðgerðum gegn Íslandi og Færeyjum í því skyni að ná betri stöðu í samningaviðræðum um stjórnun veiða úr sameiginlegum fiskistofnum. Þessi háttsemi brýtur í bága við ýmsar skuldbindingar samkvæmt hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna og almennum reglum þjóðaréttar, einkum skuldbindingu strandríkja til að koma sér saman um ráðstafanir sem tryggi vernd og þróun sameiginlegra stofna. Slíkar aðgerðir myndu enn fremur stangast á við skuldbindingar ESB samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og, að því er Ísland varðar, samkvæmt EES-samningnum.

Það er ríkisstjórn Íslands mikið áhyggjuefni að ESB leitist við að skerða rétt annarra strandríkja á svæðinu til frjálsra samningaviðræðna og samninga í því skyni að ná fram hagsmunum tiltekinna aðildarríkja sambandsins. Það er Íslandi einnig áhyggjuefni að ESB sniðgengur vísvitandi þær leiðir til lausnar deilumála sem hafréttarsamningurinn kveður á um. 

Ríkisstjórn Íslands mótmælir því harðlega að ESB grípi til hótana um að beita þvingunaraðgerðum gegn Íslandi og Færeyjum sem leið til að leysa deilur um stjórnun veiða úr sameiginlegum fiskistofnum. Ríkisstjórnin krefst þess að ESB dragi hótanir sínar til baka og virði þannig skuldbindingar sínar samkvæmt þjóðarétti.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum