Hoppa yfir valmynd
30. september 2013 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra á aðalfundi samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, flytur ávarp á aðalfundi Eyþings, samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra 27. september 2013
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, flytur ávarp á aðalfundi Eyþings, samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra 27. september 2013

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, flutti ávarp og tók þátt í umræðum á aðalfundi Eyþings, samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra sem fram fór á Grenivík föstudaginn 27. september sl. 

Í ávarpi sínu fjallaði forsætisráðherra m.a. um framkvæmdir í landshlutanum, tækifæri sem tengdust opnun norðvestur siglingaleiðarinnar og uppbyggingu tengdri Bakka og olíuleit undan ströndum landsins. Einnig lýsti forsætisráðherra stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum sem m.a. gerir ráð fyrir því að áfram verði unnið að gerð sérstakra landsáætlana í samvinnu við sveitarfélögin. 

Forsætisráðherra ræddi í lok ávarps síns um mikilvægi samkenndar, skilnings og umburðalyndis er kæmi að samvinnu Íslendinga um sameiginleg úrlausnarefni í þeim málefnum sem snúa að samskiptum höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Forsætisráðherra undirstrikaði þar með þá ósk sína að landsmenn sæju almennt frekar tækifæri í samvinnu en aðskilnaði.

 „Störf okkar Íslendinga eru margbreytileg og aðstæður stundum erfiðar. En iðulega tekst Íslendingum að leysa málin þegar þeir vinna saman. Ég sagði það í ræðu á fundi samtaka sveitarfélaga á Austurlandi á Eskifirði fyrir hálfum mánuði að ég sæi frekar tækifæri í samvinnu en aðskilnaði. Þar var ég að vísa í þann meinta aðskilnað sem illu heilli hefur of oft litað samskipti höfuðborgar og landsbyggðar. Okkur verður í því samhengi að bera auðna til þess að láta sameiginlega hagsmuni okkar sem Íslendinga vera grunn að samvinnu okkar.  

Undirstaðan fyrir slíkri samvinnu er að mínu viti samkennd, skilningur og umburðarlyndi. Samkennd til að átta sig á því hvernig öðrum líður, skilningur fyrir aðstæðum þeirra og umburðarlyndi svo ákvarðanir okkar hagnist sem flestum án þess að þær brjóti á öðrum.

Nú þegar þróun síðustu ára hefur leitt okkur á þann stað að samvinna ríkis og sveitarfélaga er eitt að þeim lykilatriðum sem við þurfum að huga að til að nýta tækifærin er mikilvægt að hafa þessar grunnforsendur samvinnunnar í huga.“

Ávarp forsætisráðherra á aðalfundi Eyþings í heild sinni

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum