Hoppa yfir valmynd
21. október 2013 Forsætisráðuneytið

Undanþága frá gildissviði upplýsingalaga vegna tiltekinna fyrirtækja í meirihlutaeigu hins opinbera

Undanfarið hafa nokkuð verið til umræðu upplýsingalög nr. 140/2012 og undanþágur sem heimilt er að veita frá gildissviði þeirra skv. 3. mgr. 2. gr. laganna. Sem innlegg í umræðuna og til skýringar eru hér raktar helstu reglur og staðreyndir málsins.

Eldri upplýsingalög, nr. 50/1996, tóku til starfsemi stjórnvalda en almennt ekki til fyrirtækja (einkaréttarlegra lögaðila). Átti það við hvort sem viðkomandi fyrirtæki voru í eigu hins opinbera eða ekki. Eina undantekningin frá þessu var sú að hefði fyrirtæki verið falið vald til að taka stjórnvaldsákvarðanir, þ.e. ákvarðanir sem féllu undir gildissvið stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, þá náðu upplýsingalögin til þeirrar starfsemi.

Með upplýsingalögum nr. 140/2012 var gildissviðið víkkað með þeim hætti að þau taka til fleiri aðila en áður. Upplýsingalögin taka, eins og áður, til allrar starfsemi stjórnvalda, en því til viðbótar taka þau einnig til allrar starfsemi sem fram fer á vegum fyrirtækja (lögaðila) sem eru í eigu hins opinbera að 51% hluta eða meira. Í þessu felst þó ekki sjálfkrafa að allar upplýsingar sem þessi fyrirtæki varða verði aðgengilegar almenningi, en vegna samkeppnishagsmuna er heimilt að undanþiggja ýmsar upplýsingar aðgangsrétti almennings, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. 

Forsætisráðherra getur veitt undanþágu frá því að lögin taki til fyrirtækja í eigu opinberra aðila ef þau starfa nær eingöngu í samkeppni á markaði. Undanþága er eingöngu veitt að tillögu hlutaðeigandi ráðherra (sá ráðherra sem starfsemi fyrirtækisins fellur undir, oftast fjármála- og efnahagsráðherra eða iðnaðar- og viðskiptaráðherra) eða sveitarstjórnar og að fenginni umsögn Samkeppniseftirlitsins um tillöguna.

Undanþága er fyrst og fremst til hagræðingar við beitingu laganna, enda er heimilt að undanskilja upplýsingar sem varða mikilvæga samkeppnishagsmuni opinberra fyrirtækja upplýsingarétti, sbr. áðurnefnda 9. gr. upplýsingalaga.

Skilyrði þess að undanþágunni verði beitt eru í grundvallaratriðum þau að starfsemi viðkomandi fyrirtækis geti ekki talist til hefbundinnar opinberrar starfsemi, svo sem þjónustustarfsemi sem fram fer á grundvelli laga, og að starfsemi þess sé að nær öllu leyti í samkeppni við einkaaðila. Eins og áður sagði er einnig skilyrði að fyrir liggi tillaga viðkomandi ráðherra og umsögn Samkeppniseftirlits þar sem mælt er með því að undanþága verði veitt.

Upplýsingalög nr. 140/2012 tóku gildi 1. janúar 2013 en ákvæði 2. og 3. mgr. 2. gr. laganna, þ.e. ákvæðin sem fella lögaðila í eigu hins opinbera að 51% hluta eða meira undir lögin, komu til framkvæmda sex mánuðum síðar eða 1. júlí 2013. 

Samkeppniseftirlitið veitti formlegar umsagnir vegna sjö lögaðila sem taldir eru upp í 1. gr. auglýsingar nr. 600/2013, um undanþágu lögaðila frá gildissviði upplýsingalaga. Þessi sjö aðilar fengu undanþágu frá gildissviði upplýsingalaga sem skal endurskoðuð eigi síðar en 1. júlí 2016.

Rauði þráðurinn í umsögnum Samkeppniseftirlitsins er sá að brýnt sé að stjórnvöld skapi ekki aðstæður sem auðveldi keppninautum að samhæfa starfsemi sína, t.d. með því að hluti markaðarins lúti ítarlegri upplýsingaskyldu en gengur og gerist um fyrirtæki á samkeppnismörkuðum, enda sé slík hegðun fyrirtækja skaðleg fyrir almenning.

Samkeppniseftirlitið sá sér ekki fært að veita formlega umsögn vegna 37 aðila, sbr. 2. gr. auglýsingar nr. 600/2013 og 1. gr. auglýsingar nr. 613/2013. Þessir aðilar fengu undanþágu frá gildissviði upplýsingalaga til skemmri tíma sem skal endurskoðuð að fenginni umsögn Samkeppniseftirlitsins, þó eigi síðar en 1. janúar 2014.

Nú eru til meðferðar í ráðuneytinu beiðnir um undanþágu vegna tveggja fyrirtækja. Engri beiðni hefur hingað til verið synjað.

Ekki liggur fyrir í ráðuneytinu listi yfir þá lögaðila sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera og hafa ekki sótt um undanþágu frá gildissviði upplýsingalaga. 

Í undirbúningi er að birta umsagnir Samkeppniseftirlits og ákvarðanir ráðherra um undanþágur á vef ráðuneytisins.

Í stuttu máli sagt:

Forsætisráðherra hefur ekki sjálfdæmi um veitingu undanþága frá gildissviði upplýsingalaga. Slíkar undanþágur eru eingöngu veittar að tillögu viðkomandi ráðherra, oftast fjármála- og efnahagsráðherra eða iðnaðar- og viðskiptaráðherra, eða að tillögu viðkomandi sveitarfélags. Þá skal Samkeppniseftirlitið veita umsögn um tillöguna. Samkeppniseftirlitið hefur bent á að brýnt sé að stjórnvöld skapi ekki aðstæður sem auðveldi keppinautum að samhæfa starfsemi sína, t.d. með því að hluti markaðarins lúti ítarlegri upplýsingaskyldu en gengur og gerist um fyrirtæki á samkeppnismörkuðum, enda sé slík hegðun fyrirtækja skaðleg fyrir almenning.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum