Hoppa yfir valmynd
24. júní 2014 Forsætisráðuneytið

Stjórnarskrárnefnd gefur út sína fyrstu áfangaskýrslu

Stjórnarskrárnefnd var skipuð af forsætisráðherra 6. nóvember 2013, í samræmi við samkomulag allra þingflokka. Hlutverk nefndarinnar er að leggja til breytingar á stjórnarskránni, með hliðsjón af þeirri vinnu sem farið hefur fram á undanförnum árum og annarri þróun í stjórnarskrármálum. Stefnt skal að því að vinnu nefndarinnar ljúki tímanlega svo hægt sé að samþykkja frumvarp til breytinga á stjórnarskránni á yfirstandandi kjörtímabili en unnt er að áfangaskipta vinnunni eftir því sem henta þykir.

Fulltrúar í nefndinni voru tilnefndir af þeim stjórnmálaflokkum sem sæti eiga á Alþingi, fjórir af ríkisstjórnarflokkum og fjórir af stjórnarandstöðu. Formaður var skipaður án tilnefningar. Stjórnarskrárnefndina skipa: Sigurður Líndal prófessor emeritus, formaður, Aðalheiður Ámundadóttir lögfræðingur, Birgir Ármannsson alþingismaður, Jón Kristjánsson fyrrverandi ráðherra, Katrín Jakobsdóttir alþingismaður, Páll Valur Björnsson alþingismaður, Skúli Magnússon héraðsdómari og dósent, Valgerður Bjarnadóttir alþingismaður og Valgerður Gunnarsdóttir alþingismaður. 

Þau málefni sem í upphafi nefndarstarfsins voru sett í forgang og fjallað er um í þessari fyrstu áfangaskýrslu eru eftirfarandi: 

  • Þjóðaratkvæðagreiðslur á grundvelli undirskrifta
  • Framsal valdheimilda í þágu alþjóðasamvinnu
  • Auðlindir 
  • Umhverfisvernd

Nánar tiltekið er gerð grein fyrir afstöðu nefndarinnar og umræðum, með áherslu á (frekari) afmörkun efnisatriða, hvort þau þurfi sérstakt ferli (utan nefndarinnar eða á vegum hennar), stöðumat, framtíðarsýn og markmið. Fjallað er um meginatriði en ekki útfærslur, enda er tilgangur skýrslunnar að skapa forsendur fyrir samráði og frekari faglegri greiningu áður en lengra er haldið. Einnig er gefið yfirlit yfir gildandi rétt, þróun erlendis og vinnu undanfarinna ára, settar fram spurningar og álitaefni og skýrt frá næstu umfjöllunarefnum. Skýrslunni lýkur á bókunum nefndarmanna um áherslur og fyrirvara.

Stjórnarskrárnefnd kallar eftir opinberri umræðu um efni skýrslunnar. Athugasemdafrestur er til 1. október 2014. 

Gert er ráð fyrir að fleiri áfangaskýrslur verði birtar eftir því sem verkefni stjórnarskrárnefndar miðar áfram, enda er hlutverk hennar víðtækt og starfstími allt til loka kjörtímabilsins. Þegar er hafin umræða um kosningar og kjördæmaskipan, embætti forseta Íslands og störf og verkefni Alþingis. Jafnframt er fyrirhugað að næstu umfjöllunarefni nefndarinnar verði ríkisstjórn og ráðherrar, dómstólar og mannréttindi.

Á vefsvæðinu  stjornarskra.is, sem er í umsjón forsætisráðuneytis, hefur almenningur aðgang að fundargerðum nefndarinnar og margvíslegum öðrum upplýsingum um málefni stjórnarskrárinnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum