Hoppa yfir valmynd
13. ágúst 2014 Forsætisráðuneytið

Fundur forsætisráðherra og framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins

Fundi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins lauk nú síðdegis. Á fundinum var undirbúningur fyrir leiðtogafund bandalagsins í Wales í næsta mánuði til umræðu, þ.m.t. staða mála í Úkraínu og öryggismál í Evrópu. Málefni Afganistan voru  til umfjöllunar sem og öryggishorfur í Mið-Austurlöndum. Þá voru öryggismál á norðurslóðum rædd og loftrýmisgæsla bandalagsins á Íslandi sem gengið hefur vel og gegnir áfram þýðingarmiklu hlutverki á Íslandi. Einnig voru vefvarnir og málefni ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi til umfjöllunar.

Anders Fogh Rasmussen lýkur störfum sem framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins í lok næsta mánaðar, en Jens Stoltenberg, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, mun taka við embættinu hinn 1. október nk. Þakkaði forsætisráðherra Anders Fogh vel metin störf hans í þágu bandalagsins og aðildarríkja þess.

Að loknum fundi með forsætisráðherra hélt framkvæmdastjóri til fundar við utanríkismálanefnd Alþingis. Þá mun Anders Fogh eiga fund með Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra og skoða varðskipið Þór.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum