Hoppa yfir valmynd
4. mars 2000 Forsætisráðuneytið

Heimsókn ráðherra til Ottawa Kanada

Heimsókn ráðherra til Ottawa Kanada

Davíð Oddsson, forsætisráðherra, og Ástríður Thorarensen, eiginkona hans, halda til Ottawa í Kanada síðdegis þriðjudaginn 4. apríl. Forsætisráðherra mun eiga viðræður við Jean Chrétien, forsætisráðherra Kanada, þann 6. apríl um samskipti landanna og forsætisráðherrahjónin taka þátt í hátíðahöldum í Ottawa í tilefni þúsund ára afmælis landafundanna.

Forsætisráðherrar Íslands og Kanada ýta úr vör hátíðahöldum sem verða í Kanada í ár til að minnast landafundanna og einnig þess að 125 ár eru liðin frá því fyrstu íslensku vesturfararnir settust að í Nýja Íslandi við strendur Winnipegvatns. Af þessu tilefni verða meira en eitt hundrað viðburðir í Kanada í ár s.s. tónleikar, listsýningar, leiksýningar og kvikmyndahátíðir auk bókaútgáfu. Þá mun víkingaskipinu Íslendingi verða siglt frá Íslandi til Kanada í sumar þar sem það heimsækir hafnir á Nýfundnalandi.

Opnunarhátíðin hefst klukkan 10.00 að morgni fimmtudagsins 6. apríl og fer fram í menningarsafninu, Museum of Civilisation. Þar afhendir Davíð Oddsson Jean Chrétien, forsætisráðherra Kanada, gjöf til kanadísku þjóðarinnar, sem er stytta Ásmundar Sveinssonar af Guðríði Þorbjarnardóttur og syninum Snorra. Guðríður var fyrsta evrópska konan sem kom til Ameríku og Snorri fyrsta evrópska barnið sem þar fæddist.

350 kanadísk skólabörn, sem lært hafa um Ísland í vetur, verða viðstödd og setja svip á athöfnina. Sigrún Hjálmtýsdóttir, Diddú, syngur við undirleik Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur. Kynnar verða Janis Johnson, öldungardeildarþingmaður, og John Harvard, þingmaður en þau eru bæði af íslenskum ættum. Við athöfnina taka til máls auk forsætisráðherranna tveggja, Bjarni Tryggvason geimfari, og David Gíslason bóndi í Manitoba.

Auk fundar með Chrétien,forsætisráðherra, mun Davíð Oddsson hitta forseta neðri deildar kanadíska þingsins og Lloyd Axworthy, utanríkisráðherra Kanada.

Föstudaginn 7. apríl á forsætisráðherra fund með fulltrúum ýmissa íslenskra fyrirtækja sem starfa í Norður-Ameríku. Við það tækifæri opnar forsætisráðherra vefsíðuna Icelandnaturally.com sem verður upplýsingasafn um Ísland í Kanada og Bandaríkjunum

Þessa sömu daga verður haldin íslensk matreiðsluhátíð og matvælakynning á Hotel Chateau Laurier í miðborg Ottawa.

Í Reykjavík, 3. apríl 2000.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum