Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2000 Forsætisráðuneytið

Skýrsla um starfsskilyrði stjórnvalda o.fl.

Skýrsla um starfsskilyrði stjórnvalda o.fl.

Forsætisráðuneytið hefur gefið út hjálagt rit um starfsskilyrði stjórnvalda. Efniviður þess er sóttur í skýrslu forsætisráðherra til Alþingis um stafsskilyrði stjórnvalda, eftirlit með starfsemi þeirra og viðurlög við réttarbrotum í stjórnsýslu. Í aðfaraorðum forsætisráðherra segir m.a.:

Stundum er því haldið fram að stjórnvöld byggi ákvarðanir sínar á eigin geðþótta, lítið eftirlit sé með störfum þeirra og engin viðurlög, ef út af bregður. Slíkar staðhæfingar eru iðulega settar fram í tengslum við einstök mál sem upp koma og eru ofarlega á baugi á líðandi stund. Oft er umfjöllun um slík mál þó svo nátengd atvikum þeirra að ekki verður um þær fjallað í breiðara samhengi, enda þótt þær snerti í raun ákveðin grundvallaratriði í stjórnarfari landsins. Af þeim sökum gefa þær hins vegar ákveðið tilefni til að kannað sé hvernig starfsskilyrði stjórnvalda eru í raun mótuð um þessi atriði. Þetta var viðfangsefni nefndar er ég skipaði í samræmi við ályktun Alþingis frá 2. júní 1998 um könnun á starfsskilyrðum stjórnvalda, eftirliti með starfsemi þeirra og viðurlögum við réttarbrotum í stjórnsýslu.

Nefndin skilaði mér vandaðri skýrslu um könnun sína og niðurstöður, er ég hef lagt fyrir Alþingi. Færi ég nefndinni, og Páli Hreinssyni formanni hennar sérstaklega, alúðarþakkir fyrir gott verk. Í ljósi þess að réttarástand á þessum sviðum stjórnsýslunnar hefur ekki verið tekið út með sams konar hætti fyrr og umfjöllunarefni skýrslunnar á sér í raun enga hliðstæðu meðal íslenskra lagabókmennta er hún jafnframt gefin út á bók. Það er von mín að skýrslan geti orðið grundvöllur málefnalegrar umræðu um starfsskilyrði stjórnvalda, ábyrgð þeirra gagnvart þinginu og þá einnig ábyrgð þingsins gagnvart stjórnvöldum m.t.t. þess hvernig það mótar verkahring þeirra og starfsskilyrði á hverjum tíma.

Skýrsla forsætisráðherra verður til umræðu á Alþingi í dag.

Í Reykjavík, 21. febrúar 2000.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum