Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2000 Forsætisráðuneytið

Breytingar á lögum um þjóðlendur o.fl.

Breytingar á lögum um þjóðlendur o.fl.

Með lögum nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, var eignarhald á landi og hvers konar landsréttindum og hlunnindum á svæðum, sem ekki eru háð einkaeignarrétti, þ.e. hinum svonefndu þjóðlendum, falið ríkinu. Með sömu lögum var sérstakri nefnd, óbyggðanefnd, falið að eiga frumkvæði að því að fara með skipulögðum hætti yfir hvaða svæði þetta eru og skera úr um mörk þeirra og eignarlanda og önnur réttindi innan þjóðlendna. Óbyggðanefnd er því ætlað að ráða til lykta álitaefnum, sem hafa bæði mikla almenna þýðingu og varða mikilvæga hagsmuni einstaklinga og lögaðila. Gert er ráð fyrir að nefndin starfi innan ákveðins tímaramma og er stefnt að því að hún ljúki störfum árið 2007.

Óbyggðanefnd tók fyrsta landsvæðið til meðferðar með tilkynningu, dags. 1. mars 1999. Sú reynsla sem fengist hefur í kjölfar þess hefur leitt í ljós að þörf er á að gera nokkrar breytingar á þeim lögum, sem um nefndina gilda, einkum í því skyni að auðvelda landeigendum og öðrum mögulegum rétthöfum á þeim svæðum, sem nefndin hefur til meðferðar, að reka mál sín fyrir nefndinni. Annars vegar að leggja nauðsynlegan kostnað, annarra en ríkisins, af hagsmunagæslu fyrir óbyggðanefnd á ríkissjóð, en hins vegar að breyta málsmeðferð fyrir óbyggðanefnd á þann hátt, að fjármálaráðuneyti er gert að lýsa kröfum ríkisins um þjóðlendur á þeim svæðum, sem nefndin ákveður að taka til meðferðar, en landeigendur og aðrir mögulegir rétthafar lýsi ekki kröfum sínum fyrr en kröfugerð ríkisins liggur fyrir.

Ríkisstjórnin hefur í dag fallist á tillögu forsætisráðherra um að frumvarp þessa efnis verði lagt fyrir komandi þing að fengnu samþykki þingflokka stjórnarflokkanna.

Í Reykjavík, 25. janúar 2000

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum