Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2014 Forsætisráðuneytið

Stefnuráð samþykkt í ríkisstjórn

Í dag samþykkti ríkisstjórnin að tillögu forsætisráðherra að fela forsætisráðuneytinu að undirbúa stofnun stefnuráðs innan Stjórnarráðs Íslands. Stefnuráðið hefur það hlutverk að vera samhæfingar- og samráðsvettvangur innan stjórnsýslunnar til að efla og bæta getu hennar til stefnumótunar og áætlanagerðar. Hlutverk stefnuráðs verður, að móta viðmið fyrir stefnumótun og áætlunagerð innan Stjórnarráðsins, að efla og samhæfa vinnubrögð ráðuneyta með fræðslu, ráðgjöf og tilmælum og að leiðbeina varðandi samspil við fjármagn og lagafrumvörp.

Samþætting opinberra áætlana er á meðal umfjöllunarefna í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og í frumvarpi til laga um opinber fjármál er að finna ríka áherslu á stefnumótun ráðuneyta. Þekking og reynsla innan ráðuneyta af mótun langtíma stefnu er á misjöfnu stigi. Innan forsætisráðuneytis hefur verið til skoðunar hvernig hægt sé að styðja við verkefni af þessu tagi, þ. á m. með samhæfingu verkferla og bættri þekkingu starfsmanna. Í lok síðasta árs hafði forsætisráðuneytið forystu um að gefin var út Handbók um opinbera stefnumótun og áætlanagerð (Stjórnarráð Íslands 2013), unnin af sérfræðingum allra ráðuneyta, þar sem sérstök áhersla var lögð á málefnasviðsstefnur. 

Stefnuráðið verður skipað fulltrúum allra ráðuneyta. Forsætisráðuneytið mun leiða ráðið og verður í því samhengi falið það hlutverk að halda utan um, lesa yfir og veita faglegar, leiðbeinandi umsagnir um stefnur og áætlanir ráðuneyta og halda utan um heildarlista þeirra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum