Hoppa yfir valmynd
6. október 2000 Forsætisráðuneytið

Samstarfsráðherra í Ríga

Fréttatilkynning

Norðurlandaskrifstofa forsætisráðuneytis

Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra og norrænn samstarfsráðherra, situr fund samstarfsráðherra Norðurlanda sem haldinn verður í Ríga í Lettlandi, mánudaginn 9. október. Í framhaldi af fundi norrænu samstarfsráðherranna munu þeir eiga fund með samstarfsráðherrum Eystrasaltsríkjanna þriðjudaginn 10. október. Lettar hafa nú tekið við formennsku af Eistlendingum í ráðherranefnd Eystrasaltsríkjanna.

Á þessum sameiginlega fundi munu samstarfsráðherrarnir fjalla um tillögur að nýrri stefnumörkun fyrir samstarf Norðurlanda við Eystrasaltsríkin og önnur grannsvæði Norðurlanda.

Þar kemur m.a. fram að þess sé vænst að hlutverk Eystrasaltsríkjanna í samstarfinu muni á næstu árum færast úr því horfi að vera þiggjendur í það að vera jafngildir aðilar þessa samstarfs. Þessari þróun er spáð vegna fyrirhugaðrar aðildar Eystrasaltsríkjanna að ESB. Þyngdarpunktar norræna grannsvæðasamstarfsins ættu þá að mati skýrsluhöfunda að færast til rússneskra grannsvæða á Pétursborgarsvæðinu og Kaliningrad.

Að sameiginlega fundinum loknum verður haldinn blaðamannafundur í Ríga þann 10. október kl. 11.20-11.40.

Á fundi norrænu samstarfsráðherranna verður þeim kynnt skýrsla aldamótanefndar þeirrar sem var skipuð í júní 1999 til að skyggnast inn í framtíð Norðurlandasamstarfs - en formaður nefndarinnar er Jón Sigurðsson bankastjóri Norræna fjárfestingarbankans og mun hann kynna skýrsluna.

Í skýrslunni sem á sænsku er nefnd "Norden 2000 - öppet för världens vindar" koma fram tillögur að nýjum áherslum í norrænu samstarfi. Daginn eftir fund norrænu samstarfsráðherranna, þann 10. október, verður haldinn blaðamannafundur í Kaupmannahöfn þar sem skýrslan verður birt og kynnt.

Nánari upplýsingar um starf aldamótanefndarinnar eru að finna á www.norden.org.


                                                                                                                                Reykjavík 6. október 2000

Nánari upplýsingar veitir Snjólaug Ólafsdóttir,
skrifstofustjóri Norðurlandaskrifstofu
í síma: GSM 896 3962.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum