Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 1999 Forsætisráðuneytið

Svanurinn sannfærandi

Fréttatilkynning


Norðurlandaskrifstofa forsætisráðuneytis
Stokkhólmur 9. nóvember 1999


Svanurinn sannfærandi

Svanurinn er það umhverfismerki sem flestir neytendur á Norðurlöndum Þekkja og treysta best. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Norræna ráðherranefndin kynnti á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi. Könnunin sýnir afstöðu norrænna neytenda til umhverfisupplýsinga og umhverfismerkinga.

"Í ár eru 10 ár síðan Norræna ráðherranefndin kynnti fyrst norræna umhverfismerkið Svaninn. Í alþjóðlegu samhengi er oft litið til Norðurlanda sem fyrirmyndar hvað varðar umhverfismerkingar" sagði Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra, á fréttamannafundi sem haldinn var í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í dag. "Nú hefur fyrsta könnunin á afstöðu norrænna neytenda til Svansins verið gerð. Könnunin verður lögð til grundvallar við frekari þróun umhverfismerkisins" staðhæfði Siv.

Könnunin sýnir að Svanurinn er ráðandi umhverfismerki í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi. Í Danmörku er það Øko-merkið (sambærilegt við KRAV í Svíþjóð) sem hefur augljóslega yfirburðarstöðu, en það skýrist af því að Svanurinn var ekki tekinn upp í Danmörku fyrr en árið 1998. Á Íslandi hefur ekkert umhverfismerki slegið í gegn en Svanurinn kemst þó næst því. Könnunin byggir á símaviðtölum og ítarlegum viðtölum við neytendur á Norðurlöndum og það eru sérfræðingarnir Lars Palm og Gunnilla Jarbro sem hafa leitt starfið og draga þær ályktanir sem birtar eru í skýrslunni.

Samtímis því sem umhverfismerkið var tekið upp fyrir 10 árum var ákveðið að könnun sem þessi yrði gerð. Könnunin er í fjórum hlutum og henni á að ljúka í desember árið 2000. Fyrsti hlutinn er sú könnun sem nú liggur fyrir, á umhverfismerkjum og umhverfisupplýsingum frá sjónarhóli neytenda og var hún gerð í samstarfi þeirra er fara með neytenda- og umhverfismál hjá Norrænu ráðherranefndinni.

Skýrsluna "Nordiska konsumenter om Svanen - kunskaper, attityder, förtroende" TemaNord 1999:592 (verð 80 d.kr. fyrir utan skatt) er hægt að panta á heimasíðunni: www.norden.org undir hnappinum "bokhandel", með tölvupósti: [email protected] eða á faxi: +45 33 11 03 45.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum