Hoppa yfir valmynd
29. október 2015 Forsætisráðuneytið

Úthlutað úr Jafnréttissjóði til rannsókna á sviði kynja- og jafnréttisfræða

Styrkhafar ásamt forsætisráðherra - mynd

Á kvennafrídaginn, 24. október sl. var úthlutað sex styrkjum til rannsókna á sviði kynja- og jafnréttisfræða úr Jafnréttissjóði. Sjóðurinn starfar á vegum forsætisráðuneytisins og afhenti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson styrkina sem numu alls 15,3 mkr.

Eftirfarandi rannsóknir hlutu styrk:

  1. Staða fatlaðra kvenna sem búa á stofnunum og í sértækum búsetuúrræðum og reynsla þeirra af ofbeldi. Styrkupphæð 3,2 mkr.
    Styrkhafi er Hrafnhildur Snæfríðar- og Gunnarsdóttir, doktorsnemi í fötlunarfræði og verkefnisstjóri hjá rannsóknarsetri í fötlunarfræðum við HÍ. Verkefnisstjóri rannsóknarinnar er Rannveig Traustadóttir prófessor við sama háskóla. Rannsóknin felst í því að greina reynslu og upplifun fatlaðra kvenna, sem búa á stofnunum og eru háðar opinberri þjónustu, af ofbeldi og skoða aðgengi þeirra að stuðningi vegna þess. Þá verða möguleikar á úrræðum kortlagðir í samræmi við niðurstöður. Í samningi Sameinuðu þjóðanna (2007) um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland er aðili að, er lögð. áhersla á úrbætur á margþættri mismunun fatlaðra einstaklinga og tekur rannsóknin mið af því. Rannsóknin þarft innlegg í jafnréttisbaráttuna með hagsmuni fatlaðra kvenna að leiðarljósi, sem og baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi.
  2. Félagið Íslensk-lesbíska og skörun kyngervis og kynhneigðar í jafnréttisbaráttu á ofanverðri 20. öld. Styrkupphæð 2,8 mkr,
    Styrkhafi er Íris Ellenberger, doktor í sagnfræði frá HÍ og sjálfstætt starfandi fræðikona með aðstöðu hjá Reykjavíkur-Akademíunni. Markmið rannsóknarinnar er að skrásetja sögu og réttindabaráttu lesbía á Íslandi á ofanverðri 20. öld. Nýnæmi rannsóknar er margþætt. Henni er ætlað að bæta við vanrækt fræðasvið innan íslenskrar akademíu, skoða margþætt samspil samfélagslegra breyta innan hinsegin samfélagsins, skrásetja og skýra félagsleg valdatengsl og kortleggja skörun mismununarbreyta innan jafnréttisbaráttunnar. Rannsóknin er því ekki einungis viðbót við fyrirliggjandi þekkingu fræðasamfélagsins sem sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi heldur er hún einnig mikilvæg fyrir jafnréttisumræðu samfélagsins í heild.
  3. Ráðstafanir gegn heimilisofbeldi á höfuðborgarsvæðinu. Árangur, samhæfing og sjónarhorn gerenda. Styrkupphæð 2,7 mkr.
    Styrkhafi er Kristín Ingibjörg Pálsdóttir, forstöðumaður RIKK, Rannsóknarstofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands. Kristín er jafnframt verkefnisstjóri en auk hennar starfar einn nýdoktor og tveir doktorsnemar við rannsóknina. Rannsóknin er samvinnuverkefni RIKK og Lögreglunnar á. Viðtöl verða tekin við gerendur og þolendur heimilisofbeldis sem og lykilstarfsfólk og svokallaða haghafa og rýnt í samfélagslega umræðu, tölfræði og rannsóknir. Nýnæmi rannsóknarinnar felst í því að kastljósi er beint að reynslu og upplifun gerenda en slíkt hefur ekki verið gert áður í íslensku samhengi. Þá eru þolendur skoðaðir út frá samfélagsbreytum á borð við kyn, kynhneigð, þjóðerni, aldri osfrv. en mikil þörf er talin á að greina betur hópa þolenda. Að mati stjórnar Jafnréttissjóðs mun rannsóknin hafa verulega þýðingu fyrir stefnumótun og aðgerðir lögreglu og stjórnvalda.
  4. Adjusting masculinities and femininities. Gender perspectives on immigration in Iceland. Styrkupphæð 3,2 mkr.
    Styrkhafi er dr. Markús Hermann Meckl, prófessor við Háskólann á Akureyri. Auk umsækjanda vinna Dr. Unnur Dís Skaptadóttir prófessor við HÍ, Kjartan Ólafsson lektor við HA og Stéphanie Barillé doktorsnemandi við HÍ við rannsóknina. Meginmarkmið hennar er að kortleggja afstöðu og skilning á kynjasjónarmiðum meðal innflytjenda á Íslandi í samanburði við innfædda Íslendinga með hliðsjón af kynjajafnrétti. Er þetta fyrsta rannsókn sinnar tegundar á Íslandi og nýmælið því mikið. Í ljósi aukins fjölda innflytjenda á Íslandi og fjölda flóttafólks í Evrópu samtímans er rannsóknin brýn og til þess fallin að styrkja stefnumótun stjórnvalda. Þeir fagaðilar sem að rannsókninni koma eru meðal helstu sérfræðinga Íslands í málefnum innflytjenda og hafa áður staðið að víðtækum rannsóknum á samfélögum innflytjenda á Íslandi.
  5. Ungir karlar og kynlífsmenning framhaldsskólanna. Styrkupphæð 1,5 mkr.
    Styrkhafi er Þórður Kristinsson MA í mannfræði frá Háskóla Íslands og verkefnisstjóri er Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir MA í kynjafræði frá Háskóla Íslands. Markmið rannsóknarinnar er að rannsaka upplifun ungra karlmanna á þeirri kynlífsmenningu og orðræðu sem einkennir líf ungs fólks í framhaldsskólum með hliðsjón af kynjajafnrétti. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á menningu ungs fólks í framhaldsskólum á Íslandi lúta flestar að félagsmenningu en undanskilja kynlífsmenningu. Sem fyrsta rannsókn sinnar tegundar býr hún yfir ótvíræðu nýnæmi og þekkingarsköpun hvað varðar félags- og kynlífshegðun ungra karla. Þá er fyrirhuguð kynning á niðurstöðum rannsóknarinnar fyrir viðeigandi markhópa sem felur í sér hagnýtt gildi.
  6. Jafnrétti fyrir alla? Jafnrétti og karlar með þroskahömlun. Styrkupphæð 1,8 mkr.
    Styrkhafi er Kristín Björnsdóttir dósent í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands og verkefnisstjóri er Ágústa Björnsdóttir verkefnastjóri í starfstengdu diplómanámi við HÍ. Markmið rannsóknarinnar er að kanna upplifun og reynslu karla með þroskahömlun af starfi að jafnrétti kynjanna, viðhorf þeirra til hlutverkaskiptingar kynjanna og aðgengi þeirra að jafnréttisstarfi. Auk þess verður skoðað hvernig hægt væri á árangursríkan hátt að auka þekkingu þeirra á jafnrétti og virkja til þátttöku í jafnréttisstarfi. Aðferðafræði rannsóknarinnar byggir á aðferðum samvinnurannsókna á sviði mannrfræðinnar og nánu samstarfi við fólk með þroskahömlun sem eru meðrannsakendur.  

Um Jafnréttissjóð

Á árinu 2005 samþykkti ríkisstjórn Íslands að minnast 30 ára afmælis Kvennafrídagsins með því að stofna sérstakan rannsóknarsjóð, Jafnréttissjóð, til eflingar rannsókna um stöðu kvenna og karla. Sjóðnum er ætlað að vera framlag og hvatning til þess að hér á landi séu gerðar vandaðar rannsóknir á sviði jafnréttis- og kynjafræða til að undirbyggja bæði almennt starf að jafnrétti kynja og stefnumótun stjórnvalda sem annarra. Á þeim tíu árum sem liðin eru frá stofnun sjóðsins hefur verið lögð áhersla á rannsóknir á stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði, á áhrifum gildandi löggjafar á sviði jafnréttismála og á síðari árum í vaxandi mæli á samspili kyns og annarra mismununarþátta. Sérstaklega hefur verið horft til þátttöku ungra vísindamanna í rannsóknarverkefnum.

Sjóðurinn starfar skv. reglum um úthlutun styrkja Jafnréttissjóðs nr. 513/2006. Hann er vistaður í forsætisráðuneyti og skipar forsætisráðherra formann sjóðsins sem nú er Anna Kolbrún Árnadóttir menntunarfræðingur. Aðrir í stjórn sjóðsins eru Jóna Pálsdóttir tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðherra og Ingi Valur Jóhannsson tilnefndur af félags- og húsnæðismálaráðherra. Starfsmaður og varaformaður sjóðsins er Hildur Jónsdóttir, sérfræðingur í forsætisráðuneyti.

Í ár er síðasta úthlutun úr sjóðnum í þeirri mynd sem hann hefur verið starfræktur, en gert er ráð fyrir að á næsta ári taki Jafnréttissjóður Íslands við hlutverki hans. Ekki var úthlutað úr sjóðnum á árunum 2009-2011. Rannsóknir sem styrktar hafa verið frá stofnun sjóðsins eru 30 talsins og styrkir Jafnréttissjóðs hafa samtals numið 70,5 mkr.

Kynningarefni um rannsóknir sem styrktar hafa verið er að finna hér á vef forsætisráðuneytis.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum