Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2016 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra kynnir sér aðstæður flóttamanna í Líbanon og sækir leiðtogafund um málefni Sýrlands í London

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ferðast í dag til í Líbanon þar sem hann mun kynna sér aðstæður flóttamanna á svæðinu og starf stofnana Sameinuðu þjóðanna og Rauða krossins á svæðinu. Forsætisráðherra mun meðal annars heimsækja Flóttamannahjálp SÞ (UNHCR) og Palestínuflóttamannaaðstoð SÞ (UNRWA), samræmingarskrifstofu SÞ (OCHA), skrifstofu sérstaks samræmingaraðila SÞ í Líbanon (UNSCOL) og funda meðal annars með yfirmönnum þessara stofnana á svæðinu. Þá mun forsætisráðherra heimsækja flóttamannabúðir á vegum UNHCR og búðir fyrir Palestínuflóttamenn á vegum UNRWA.

Þá mun forsætisráðherra funda með framkvæmdastjóra Rauða krossins í Líbanon og heimsækja verkefnið Heilsugæsla á hjólum sem Íslendingar hafa styrkt, en verkefnið veitir sýrlenskum flóttamönnum á svæðinu mikilvæga grunnheilbrigðisþjónustu.

Í tengslum við heimsókn sína mun forsætisráðherra einnig funda með forsætisráðherra Líbanon þar sem rætt verður um samskipti og viðskipti ríkjanna og um megintilgang farar forsætisráðherra sem er að kynnast aðstæðum flóttamanna í Líbanon, kynna sér þau áhrif sem átökin í Sýrlandi og gríðarlegur fjöldi flóttamanna þaðan hefur haft á líbanskt samfélag og afla upplýsinga um hvernig alþjóðleg framlög geta best komið að liði.

Þá mun forsætisráðherra einnig eiga fundi með forseta líbanska þingsins, fulltrúum Rauða krossins á svæðinu.

Síðar í vikunni mun forsætisráðherra sækja sérstakan leiðtogafund um málefni Sýrlands í London í boði forsætisráðherra Bretlands, Þýskalands, Noregs og Kúveit. Á fundinum verða meðal annars til umfjöllunar framlög ríkja heims til að styðja við flóttamannavandann í löndunum í kring um Sýrland, möguleikar á efnahags- og atvinnuuppbyggingu í Sýrlandi og stuðningur við menntun innan Sýrlands og meðal flóttamanna í nágrannalöndum þess. Forsætisráðherra mun á fundinum kynna framlag Íslands til aðstoðar við flóttamenn í nágrannalöndum Sýrlands fyrir árin 2015-16.

Í tengslum við leiðtogafundinn mun forsætisráðherra funda með forsætisráðherrum Norðurlanda í London um fólksflutningavandann.

Þá mun forsætisráðherra taka þátt í kynningu í Sendiráði Íslands í tilefni af markaðssetningu og sölu íslensks skyrs í Bretlandi og hitta Íslendinga búsetta í London og nágrenni.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum